Sviflína í Kömbunum

Útsýnispallur verður neðan við efstu beygjuna í Kömbum, sem er …
Útsýnispallur verður neðan við efstu beygjuna í Kömbum, sem er næst á þessari mynd. Hér rennur Hengladalsáin fram og áfram niður Svartagljúfur, en yfir henni yrði sviflínan sem fólk færi á frá áðurnefndum palli. mbl.is/Sigurður Bogi

Tvær eins kílómetra langar sviflínur með farþegasætum verða næsta vor væntanlega komnar í Kambana, við austurbrún Hellisheiðar. Bæjarráð Hveragerðis fól bygginganefnd sveitarfélagsins sl. fimmtudag að fara í skipulagsvinnu, skv. fyrirliggjandi gögnum Kambagils ehf. Jafnframt stendur til að reisa útsýnispall skammt frá þjóðveginum í Kömbunum, það er á barmi Svartagljúfurs í Reykjadal, sem þarna er falið í landslaginu.

Hátt yfir löngu og djúpu gilinu

Hugmyndin er sú að fólk fari í rólurnar frá útsýnispalli sem setja á upp örskammt frá þjóðveginum í Kömbum, nærri fossunum tveimur sem eru við efstu beygjuna þar og blasa við vegafarendum sem leið eiga um. Í Svartagljúfri er hár foss, flestum falinn en verður sýnilegur þegar sviflínurnar verða komnar upp. Hugsunin er sú að frá pallinum í Kömbum verði svifið í rólu hátt yfir löngu og djúpu gilinu niður í dalinn og lent nærri bílastæði við veitingastofu sem er í Reykjadal. Auk sæta á línunni verður einnig hægt að bruna niður hana á sleða, það er liggjandi með höfuðið á undan.

Flugferð á línu yfir stórbrotna náttúru verður ögrun í tilverunni.
Flugferð á línu yfir stórbrotna náttúru verður ögrun í tilverunni. mbl.is/Unnur Karen

Auk lendingarstaðar og aðstöðuhúss í Reykjadal er þar margvísleg önnur uppbygging fyrirhuguð, en staðurinn er fjölsóttur vegna heitra náttúrulauga sem eru þar í grenndinni og marga vilja njóta.

„Þetta er spennandi verkefni sem ánægjulegt er að hafi fengið grænt ljós í Hveragerði,“ segir Hallgrímur Kristinsson, forsvarsmaður Kambagils, í samtali við Morgunblaðið. Svifbraut með sætum, svokallaðar zip-línur, er til dæmis við Perluna í Öskjuhlíð í Reykjavík, svo fyrirmynd sé nefnd.

Miklar öryggiskröfur

Allt verður stærra í sniðum við Kambana en í Öskjuhlíð og kostnaður við fyrirhugaða uppbyggingu þar hleypur á hundruðum milljóna króna.

Ætlunin er sú að í Reykjadal yrði ekið að brekkurótum með fólk, sem svo þyrfti að ganga upp gil og brekku að áðurnefndum palli þar sem flugferðin hefst. „Þetta væri þægileg ganga og leið flestum fær,“ segir Hallgrímur. Í verkefni þessu starfa forsvarsmenn Kambagils ehf. með kanadísku fyrirtæki sem víða um veröld hefur staðið að uppsetningu sviflína og tengdra tækja.

„Miklar öryggiskröfur eru gerðar og að mörgu þarf að hyggja. Við leggjum til dæmis mikið upp úr því að allt sem gert verður sé endurkræft í umhverfi Reykjadals, Svartagljúfurs og Kamba. Undirbúningur hefur staðið lengi yfir, helstu teikningar og gögn eru tilbúin og fara nú í yfirferð vegna deiliskipulagsvinnu sem tekur einhverja mánuði. Við stefnum ótrauð á að þessi ævintýraveröld verði tilbúin að ári,“ segir Hallgrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert