Þykja skattsvik ekki aðlaðandi

Arnar Sigurðsson áfengissali .
Arnar Sigurðsson áfengissali . mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnari Sigurðssyni, eiganda San­tew­ines SAS, þykir ÁTVR fullsnemma í því að spá fyrir um skattsvik í ljósi þess að ekki sé komið heilt virðisaukaskattstímabil frá því að netverslunin hóf starfsemi sína. Þess þá heldur sé ekki komið að uppgjöri á slíku tímabili. Honum þykir þetta nýtilkomna eftirlitshlutverk ekki fara ÁTVR vel. 

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hefur kært Arnar Sigurðsson, auk frönsku netverslunarinnar Santewines SAS og innflutningsfyrirtækisins Sante ehf. til lögreglu og skattayfirvalda fyrir meint skattsvik. Fyrirtækin eru bæði í eigu Arnars.

„Það er erfitt að spá fyrir, sérstaklega um framtíðina en þeir eru kannski betri spámenn en aðrir,“ segir Arnar og vísar til stjórnenda ÁTVR.

Ljótur leikur að svindla á hógværum skatti

Aðspurður hvort Arnar hafi í hyggju að svíkjast undan skatti segir hann kíminn að það hafi ekki verið rætt sérstaklega innanhúss. Hann veltir fyrir sér hvort rétt sé að líta á þetta sem tillögu frá ÁTVR frekar en ásakanir. 

„Ef meiningin hefði verið að svíkjast undan skatti þá er það ekki alveg tímabært.“

Arnar bendir á að virðisaukaskattur á áfengi sé ekki nema 11%, líkt og á öðrum matvælum. „Manni þætti það nú ljótur leikur að reyna að svindla á svo hógværum virðisaukaskatti.“

Virðisaukaskattsnúmerið komi fram

Í kærunni er helst byggt á því að hið franska félag hafi hvorki íslenska kennitölu né virðisaukaskattsnúmer og því enga heimild til þess að innheimta hér virðisaukaskatt en þrátt fyrir það sé lagður 11% skattur á vörusölu fyrirtækisins.

Arnar segir að virðisaukaskattsnúmerið komi fram á reikningum félagsins og kveðst því ekki hafa séð nein haldbær rök fyrir ásökununum. 

Ekki góð stjórnsýsla

„Ég hef aldrei svikist undan skatti og það hefur bara ekki hvarflað að mér. Það er fangelsi við þessu og svona, ekkert mjög aðlaðandi,“ segir Arnar. 

Það að gefa út rangar sakargiftir að órannsökuðu máli þykir Arnari ekki góð stjórnsýsla. Hann hefur þó ekki skoðað það sérstaklega að bregðast við þessu frekar en að bera málið undir lögfræðinga. 

Arnar segist ekki stressaður yfir ásökununum. „Ég held að þetta dæmi sig nokkuð sjálft.“ Hann bendir á að Sante sé að selja sömu vörur og ÁTVR á 25% lægra verði. Þetta henti ekki ÁTVR. „Þá er kannski bara hægt að grípa til rógburðar eða rangra sakargifta.“

„Lélegri í þessu en vali á vínum“

Að sögn Arnars hefur ÁTVR hefur verið iðið við að blekkja almenning á Íslandi í gegnum tíðina. „Í fyrsta lagi að stofnunin tryggi gott vöruúrval, í öðru lagi lágt vöruverð, í þriðja lagi torvelt aðgengi og svo kannski það fjórða, að allir samkeppnisaðilar þeirra séu skattsvikarar.“

Líkt og áður kom fram er ÁTVR búin að leggja fram kæru á hendur Sante bæði til lögreglu og til skattayfirvalda.

 „Eigum við ekki bara að leyfa þessum ágætu stofnunum, sem eru sem betur fer sjálfstæðar, að vinna sína vinnu og það verður þá bara haft samband við okkur ef þau gruna okkur um skattsvik.“

Arnar spyr síðan hvenær ÁTVR hafi orðið að eftirlitsstofnun. „Mér sýnist þeir jafnvel lélegri í þessu en í vali á vínum.“ 

Arnari þykir lítið til úrvals ÁTVR koma
Arnari þykir lítið til úrvals ÁTVR koma mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Augljós málamyndagjörningur“

ÁTVR heldur því jafnframt fram að viðskipti þau sem Santewines SAS, hið franska félag, bjóði upp á sé „augljós málamyndagjörningur“ þar sem vínið sem selt er til neytenda sé flutt inn af hinu íslenska Sante ehf. en svo selt áfram til Santewines SAS sem selji það svo áfram í gegnum verslun sína á netinu á meðan vínin sitji allan tímann í sömu vörugeymslunni. 

Arnar gefur lítið fyrir þetta. Hann sé ekki að reyna að sniðganga lögin heldur séu viðskiptin sett upp með þessum hætti til þess einmitt að vera í samræmi við lög. Hér sé ekki um að ræða verslun sambærilegri þeim sem ÁTVR rekur. 

„Hér er bara vöruhús og netverslun. Við erum ekki í Smáralind eða Kringlunni að trana okkur fram með útstillingargluggum, framan í andlitið á veiklinduðum sem eiga leið framhjá að kaupa í matinn.“

Arnar bendir á að hann reki ekki verslun á við …
Arnar bendir á að hann reki ekki verslun á við þær sem ÁTVR rekur, heldur aðeins vöruhús og netverslun. mbl.is/Árni Sæberg

Afrakstur ekki í samræmi við kostnað

Arnar telur að stjórnendur ÁTVR ættu að líta í eigin barm og einbeita sér að því að mæta samkeppni með betri þjónustu, lægra verði og betra úrvali. 

„Afrakstur hjá þessu félagi verðlega, vörulega og úrvalslega er ekki í samræmi við það að yfirstjórnin kosti 350 milljónir á ári,“ segir Arnar og bætir við að leynilögreglustarfsemi þeirra sé ekki betri.

mbl.is