Ágústhiminn verðlaunaður á Cannes

Jasmin og Kári með viðurkenningarskjalið.
Jasmin og Kári með viðurkenningarskjalið. Ljósmynd/Aðsend

Brasilísk-íslenska stuttmyndin Ágústhiminn, eða Céu de Agosto eins og hún heitir á portúgölsku, vann til verðlauna á verðlaunakvöldi Cannes í gær.

Myndin hlaut svokölluð „sérstök verðlaun“ en þau eru aðeins veitt þegar mjótt er á munum milli tveggja mynda. Myndin „All the Crows in the World“ eftir Tang Yi hreppti aðalstuttmyndaverðlaunin og má ætla að mjótt hafi verið á munum milli hennar og Ágústhimins.

Í ár voru 10 stuttmyndir valdar af 3.739 til þess að taka þátt í aðalkeppni Cannes en hátíðin er ein virtasta og vinsælasta hátíð stuttmynda í heiminum.

Skógareldar íkveikjan

Myndin er skrifuð og leikstýrt af hinni brasilísku Jasmin Tenucci en framleidd af Kára Úlfssyni og klippt af Brúsa Ólasyni. Þau kynntust öll í Columbia-háskóla í New York þar sem Jasmin og Brúsi námu leikstjórn og handritsskrif og Kári framleiðslu.

Verkefnið hefur verið í þróun í um þrjú ár en í lok ágúst 2019 tók það óvænta stefnu þegar skógareldar geisuðu í Amazon-frumskóginum. Þá var Jasmin á gangi í heimaborg sinni í Brasilíu um hábjartan dag þegar reykmökkur lagðist yfir borgina. Þar kviknaði hugmyndin að söguþræði myndarinnar en hún segir frá hinni óléttu Luciu í Sao Paulo sem óttast yfirvofandi endalok.

Kári, Brúsi, Jasmin og restin af teymi myndarinnar.
Kári, Brúsi, Jasmin og restin af teymi myndarinnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is