Einn lagður inn á Landspítala með kórónuveirusmit

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Einn einstaklingur var lagður inn á Landspítalann í gær með kórónuveirusmit. Þetta staðfestir Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar, í samtali við mbl.is. Að sögn Runólfs var einstaklingurinn bólusettur og er ekki alvarlega veikur. Þá var innlögnin í gær sú fyrsta í nokkrar vikur. Vísir greindi fyrst frá í dag.

Þá segir Runólfur að ástandið á Covid-göngudeildinni sé svipað og það hefur verið undanfarna daga og að þeir sem smitist séu meira og minna bólusettir einstaklingar. 

Þá er enginn alvarlega veikur eða með veruleg veikindi vegna kórónuveirusmits. Annaðhvort er fólk með væg einkenni eða nánast einkennalaust að sögn Runólfs.

Ljósmynd/Landspítalinn

Hjálpar mikið að samfélagið er að mestu bólusett

Runólfur býst ekki við því að göngudeildin fari að fyllast. „Þetta er langt frá því sem áður var. Sú staðreynd að samfélagið er að mestu bólusett hjálpar náttúrlega mikið en samt sem áður er veira þarna úti í samfélaginu og einn og einn er að smitast en sem betur fer eru einkennin yfirleitt mjög væg,“ segir Runólfur og bætir við:

„Fólk getur auðvitað þurft að leggjast inn á spítala jafnvel út af einhverju öðru. Þannig að það kemur kannski ekki á óvart ef það myndi gerast en það er allavega enginn alvarlega veikur með Covid-19.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert