Gestir ágengir við starfsfólk tjaldsvæða

Tjaldsvæðið á Reyðarfirði.
Tjaldsvæðið á Reyðarfirði. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tjaldsvæðin á Austurlandi eru sem áður þétt skipuð en góða veðrið hefur leikið við íbúa og ferðamenn á svæðinu undanfarnar vikur. Í hópnum Tjaldsvæði – umræðuvettvangur á Facebook ber mikið á spurningum um tjaldsvæðin á Austurlandi og eru Íslendingar helst forvitnir um hver staðan á lausum plássum sé.

Lára Björnsdóttir, umsjónarmaður með fimm tjaldsvæðum í Fjarðabyggð, kveðst ekki muna eftir öðru eins sumri. Segir hún mikla þreytu komna í starfsfólkið en gríðarleg eftirspurn er eftir tjaldsvæðunum. Hefur ágengni gesta aukist mikið og hefur Lára verið að fá símtöl frá ferðamönnum á öllum tímum sólarhringsins.

Gestir koma vel fram sín á milli

Tjaldsvæðin í Fjarðabyggð hafa í sumar verið meira og minna full og hafa nú verið tekin í notkun aukasvæði í Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Neskaupstað. Að sögn Láru er gott að hafa smá aukapláss til að vinna með en bendir hún þó á að ekki megi mikið út af bregða. Um leið og veðrið stendur ekki undir nafni dettur eftirspurnin niður.

„Það þarf ekki nema einn skýjaðan dag og tjaldsvæðin fara aftur að tæmast,“ segir Lára.

Þrátt fyrir mikla þreytu er Lára þó afar jákvæð yfir sumrinu og segir hún þessa miklu eftirspurn af hinu góða. Þrátt fyrir mikla samkeppni um stæði, rafmagn og aðra þjónustuþætti segir Lára tjaldsvæðagesti almennt koma fram af mikilli virðingu hver við annan og lítið beri á leiðindum þeirra á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert