Hnífur og hamar í hópslagsmálum

Allir fangaklefar stóðu fullir í nótt.
Allir fangaklefar stóðu fullir í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en allir fangaklefar standa nú fullir. Var meðal annars tilkynnt um tvenn slagsmál þar sem einstaklingar voru vopnaðir hnífum. Almennt var mikið um slagsmál, ölvunar- og hávaðatilkynningar.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt fyrir hálffjögur í gær var ökumaður stöðvaður vegna gruns um fíkniefnaakstur, voru börn með í bifreiðinni.

Æstur maður með golfkylfu í hendi

Um hálftvöleytið fékk lögregla tilkynningu um tvo menn að slást og var annar þeirra vopnaður hníf. Skömmu seinna barst lögreglu tilkynning um æstan mann með golfkylfu í miðbæ Reykjavíkur en þegar lögregla kom á vettvang flúði maðurinn. Hann var að lokum handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Upp úr fjögur í nótt bárust tilkynningar um hópslagsmál í miðbænum. Í fyrri slagsmálunum voru tveir vopnaðir einstaklingar, bar annar þeirra hníf og hinn hamar. Báðir voru handteknir en látnir lausir eftir að lögregla hafði fengið upplýsingar frá þeim. Hin hópslagsmálin voru yfirstaðin þegar lögregluna bar að garði.

Fékk lögreglan einnig tilkynningu um einstakling í annarlegu ástandi sem ógnaði vegfarendum. Sýndi hann mikinn mótþróa í handtöku og sparkaði meðal annars í lögreglumann.

Innbrot, þjófnaður, eignaspjöll, eldur í pappagámi, fíkniefnahandtaka og átök í bifreið á ferð komu einnig fram í dagbók lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert