Níu innanlandssmit og öll utan sóttkvíar

Níu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Enginn þeirra var í sóttkví. Þá greindust sjö smit á landamærunum. 

Ekki er enn vitað hvert hlutfall bólusettra er í þessum tölum en meirihlutinn var bólusettur, að því er segir í tilkynningu almannavarna. 

Eins og síðustu daga stendur nú smitrakning yfir, eftir daginn í gær eru 379 manns í sóttkví og 111 í einangrun, vænta má að talsvert fleiri fari í sóttkví eftir daginn í dag þar sem rakning er hafin á þeim smitum sem inn komu seint í gærkvöldi. Um er að ræða bráðabirgðatölur.

Horfa mest á suðvesturhornið

„Enginn var í sóttkví sem er auðvitað áhyggjuefni,“ segir Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna í sam­tali við mbl.is.

„Fólk er að fara mikið milli staða og þar að leiðandi verður rakningin flóknari og tekur smá tíma,“ segir hún og bætir við að smitin tengist flest skemmtanalífinu.

„Auðvitað er alveg við því að búast að nú þegar fólk er meira á faraldsfæti að það dreifist meira út. En núna erum við að horfa mest á suðvesturhornið,“ segir Hjördís, spurð hvort að smitin séu farin að dreifast meira um land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert