„Blússandi gangur“ í gosinu

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Púlsavirkni er nú í eldgosinu í Geldingadölum. Gosóróinn hefur sveiflast mikið undanfarna daga og vikur. „Þetta er ólíkindatól,“ segir náttúruvársérfræðingur um gosið. 

Gosóróinn lognaðist út af síðdegis á laugardag og tók aftur við sér um miðnætti. Um klukkan hálfþrjú aðfaranótt sunnudags fór hviðuvirkni aftur að mælast í gosinu, áður en óróinn róaðist aftur á sunnudagsmorgun og lítil virkni var í gosinu framan af sunnudeginum. Gosið tók svo aftur við sér síðdegis í gær.

„Það er blússandi gangur frá því seinnipartinn í gær. Það tók sér smá kríu í gær og fór svo smám saman að byrja aftur upp úr klukkan 15 í gær. Klukkan 19 í gærkvöldi hófst púlsavirkni aftur. Það er svona eins og það sé að hlaða í og þegar það er búið að ná einhverju þrepi þá byrjar þessi púlsavirkni yfirleitt aftur,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

Rennur undir yfirborðinu

Púlsavirknin í nótt hefur verið nokkuð þétt að sögn Salóme en virðist nú vera að breytast aðeins. 

„Það er búið að vera nokkuð þétt púlsavirkni, stutt á milli og margir á klukkustund í nótt. Núna virðist það vera að fara í annan takt, lengri púlsar, einn á klukkustund og þá langur. Í staðinn fyrir öran takt er hann að verða hægari,“ segir Salóme. 

Hraunið rennur nú fyrst og fremst niður í Meradali. 

„Við fengum staðfestingu á því í gær að það væri líklega eitthvað að renna undir hraunyfirborðinu í vestanverða Nátthaga, en það er komið smá hraunfljót sem rennur niður í Meradali og það rennur mestmegnis þangað,“ segir Salóme. 

Skyggni á gossvæðinu hefur verið lélegt undanfarna daga og talsverð gosmóða liggur nú yfir höfuðborgarsvæðinu og upp í Hvalfjörð. 

„Við sjáum vel í gíginn núna, en það er bara lélegt skyggni á suðvesturhorninu. Sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu er bara leiðindagosmóða yfir. Við erum ekki með nema 4-5 kílómetra skyggni núna undir morgun. Það eru að mælast nokkuð há gildi hér í Reykjavík svo fólki er bent á að passa sig ef það er viðkvæmt,“ segir Salóme. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert