„Þarf konan alltaf að deyja?“

Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri hefur í gegnum tíðina reynt að halda á lofti sögum sterkra kvenna. Hún er gestur í nýjasta þætti Dagmála og veltir því þar fyrir sér hvort konur þurfi alltaf að deyja til þess að vera skilgreindar sem hetjur. 

Brynhildur skrifaði einleikinn Brák, sem settur var á svið í Landnámssetri Íslands í Borgarnesi árið 2008. Verkið fjallaði um Þorgerði Brák, fóstru Egils Skallagrímssonar. Brynhildur hefur tekið þátt í og skrifað fleiri verk um konur og sló t.a.m. í gegn þegar hún fór með titilhlutverkið í uppsetningu Þjóðleikhússins á Edith Piaf árið 2004. 

„Þessar sterku konur sem við segjum sögur af, þær deyja. Þær láta líf sitt til þess að krafturinn og réttlætið megi ganga fram og til þess að þeirra kraftur endurómi hjá næstu kynslóðum. Það er ekki alltaf þannig í tilvikum karlanna. Þeir fá upphefð fyrir það að fara í stríðið og verða stríðshetjur. Þær eru sömu hetjurnar en þær gefa líf sitt fyrir,“ segir Brynhildur.

„Þetta er ótrúlega göfugt og stórt, en óhjákvæmilega hugsar maður: „Þarf konan alltaf að deyja?“ Sjáum hvert sögur framtíðarinnar fara.“

Þætt­ir Dag­mála eru opn­ir áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má horfa á viðtalið við Bryn­hildi Guðjóns­dótt­ur í heild sinni hér. Mögu­legt er að kaupa vikupassa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert