Þykir ákvörðunin þungbær

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra bindur miklar vonir við að aðgerðirnar …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra bindur miklar vonir við að aðgerðirnar séu tímabundnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja á nýjar takmarkanir á landamærunum er þungbær. Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Bólusettir ferðamenn verða nú krafðir um neikvætt veirupróf til viðbótar við bólusetningarvottorð en reglurnar taka gildi eftir viku. Bæði verður hægt að framvísa PCR-prófi eða neikvæðu mótefna-hraðprófi. 

Þyngri kröfur en önnur Evrópulönd

Spurð hvort hún sé sammála ákvörðun ríkisstjórnarinnar segir Áslaug að henni þyki „þungbært að þurfa að setja þyngri kröfur en önnur Evrópulönd eru með, á bólusetta ferðamenn sem hingað koma til landsins“.

Segist hún vona að þetta standi yfir sem styst.

Við höfum ekki séð mikil veikindi meðal þeirra sem smitast af veirunni og eru fullbólusettir. Ég vona að við höldum áfram að treysta bólusetningum og að hún virki gegn þessari veiru.“

Hún segist um leið binda miklar vonir við að bólusettir ferðamenn og Íslendingar geti fljótt ferðast aftur á milli landa án þess að þurfa að framvísa öðru en bólusetningarvottorði. Ekki sé ástæða til að grípa til meiri ráðstafana eins og staðan er núna.

Staðan önnur þegar stór hluti er bólusettur

Hún vill ekki svara fyrir forsendur takmarkananna eða hvaða aðstæður þurfi að vera uppi til að þeim verði aflétt en bendir á að heilbrigðisráðherra taki ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir á landamærunum.

„Það þarf að líta til alls konar annarra sjónarmiða en smittalna þegar þjóðin er orðin jafn bólusett og hún er í dag og ég vona að það verði gert við allar þær ákvarðanir sem verða teknar í framhaldinu. Staðan er auðvitað talsvert önnur þegar svona stór hluti þjóðarinnar er orðinn bólusettur.“

mbl.is