Ekki verið ákveðið að funda formlega um Gylfa

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is/Golli

Ekki hefur verið ákveðið að funda formlega um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, af hálfu Knattspyrnusambands Íslands. Þetta segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við mbl.is. 

Heimildir mbl.is herma að Gylfi sé til rannsóknar enskra lögregluyfirvalda grunaður um brot gegn barni. 

„Það eina sem við höfum í höndunum eru þær upplýsingar sem eru í fjölmiðlum, meðal annars Morgunblaðinu, þannig við bíðum eftir að frá frekari gögn í málinu,“ segir Klara.

Ekki nafngreindur í tilkynningum

Hún segir einnig að KSÍ hafi engin gögn undir höndum þar sem Gylfi er nafngreindur og sagður vera sá sem um ræðir. Bæði hafa lögregluyfirvöld í Englandi greint frá því að knattspyrnumaður sé til rannsóknar vegna gruns um brot gegn barni og þá hefur Everton, knattspyrnufélagið sem Gylfi leikur með, greint frá því að umræddur knattspyrnumaður sé leikmaður liðsins. Hvergi í þeim tilkynningum er Gylfi þó nafngreindur.

Þær fréttatilkynningar segir Klara að séu það eina sem KSÍ hefur í höndunum og því hefur enn ekki verið formlega boðað til fundar innan forystu KSÍ vegna málsins. 

„Það sem við lítum á sem staðfestar upplýsingar er fréttatilkynning frá ensku lögreglunni og svo Everton, þar sem ekki er nafngreindur leikmaður. Þannig að við bíðum eftir frekari upplýsingum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert