KSÍ telur ótímabært að tjá sig frekar um mál Gylfa

KSÍ telur ekki tímabært að tjá sig um mál Gylfa …
KSÍ telur ekki tímabært að tjá sig um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar en heimildir mbl.is herma að hann hafi verið handtekinn fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að KSÍ muni ekki tjá sig um mál Gylfa Þórs Sigurðssonar fyrr en sambandið hafi fengið það formlega staðfest að um íslenskan leikmann sé að ræða. 

Samkvæmt heimildum mbl.is er Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, sá leikmaður Everton sem var handtekinn á föstudag fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi.

Hafið þið haft samband við Gylfa eða aðra í þeim tilgangi að fá slíka staðfestingu? 

„Það er ekki tímabært að við séum að tjá okkur frekar um þetta mál núna. Svo ég hef engu að bæta við það sem þegar hefur komið fram,“ segir hún. 

Þá hefur Klara sagt að það eina sem KSÍ hefur í höndunum séu upplýsingar sem fram hafa komið í fréttum á Íslandi og yfirlýsingar Everton og lögregluyfirvalda í Manchester. Hið síðarnefnda lítur KSÍ á sem staðfestar upplýsingar en hvorki Everton né lögregluyfirvöld í Manchester hafa nafngreint leikmanninn.

Spurð hvort málið hafi verið rætt innan KSÍ sagði Klara sambandið ekki munu tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is