Messað í eyðibyggð

Sköpunarverkið hefur trúarlegt inntak, segir sr. Þorgeir Arason
Sköpunarverkið hefur trúarlegt inntak, segir sr. Þorgeir Arason Ljósmynd/Stefán Bogi Sveinsson

Fjölmenni var við guðsþjónustu í kirkjunni á Klyppstað í Loðmundarfirði sl. sunnudag, en löng hefð er fyrir því að messað sé í eyðibyggðinni einu sinni á sumri. „Þetta var skemmtileg stund og fólk kom víða að til þess að vera við þessa stund,“ segir sr. Þorgeir Arason, sóknarprestur á Egilsstöðum. Athöfnina önnuðust þau sr. Þorgeir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir, sem fyrir 15 árum átti upptökin að árlegri sumarmessu í hinni afskekktu eyðibyggð.

Haldið í tengslin

Loðmundarfjörður er austur á landi, milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri. Tæplega hálf öld er síðan föst búseta lagðist af á þessu svæði, sem er fjölsótt á sumrin. Gönguhópar fara mikið þarna um og fólk sem hefur tengsl og rætur á svæðinu kemur þangað mikið. Kirkjan á Klyppstað var reist árið 1895, og eru viðir hennar að talsverðum hluta úr því guðshúsi sem áður stóð á sama stað. Ástand kirkjunnar er gott enda hefur henni verið vel viðhaldið.

„Með helgihaldi á þessum fallega stað sem Loðmundarfjörður er höldum við í tengslin við forfeður okkar, söguna og náttúruna,“ segir Þorgeir. „Útimessur hafa víða verið haldnar hér á Austurlandi, eins og raunar víða annars staðar um landið, og hafa mælst vel fyrir. Þarna, og sennilega hvergi betur, getur fólk skynjað hve sterkt trúarlegt inntak sköpunarverkið hefur. Messur í Selskógi hér við Egilsstaði, við tilgátutorfhúsið Geirsstaðakirkju í Hróarstungu, inn til dala og upp til fjalla, heyri ég og finn að lifa í vitund þeirra sem mæta.“

Í guðsþjónustunni sl. sunnudag var lagt út frá guðspjalli dagsins, sem fengið var úr 16. kafla Matteusar. Boðskapur þess er að fólk skuli varast súrdeig faríseanna, með öðrum orðum falsboð, og enginn skuli gera mannamun. „Þetta talar skýrt inn í aðstæður dagsins. Margt í nútímanum er ekki hvað sýnist. Slíkt er hið varasama súrdeig, svo notað sé tungutak Biblíunnar. Guðs ríki er hins vegar eins og súrdeigið sem konan fól í mjölinu í dæmisögu Jesú; hin góðu áhrif sem breiða út frá sér og mæta okkur í daglegri tilveru venjulegs fólks, þegar við erum opin fyrir nærveru Krists,“ segir Þorgeir.

Nærri 100 manns sóttu messuna, á veðursælum degi eystra.
Nærri 100 manns sóttu messuna, á veðursælum degi eystra.

Heimabakað í messukaffi

Og talandi um brauð; eftir athöfnina var messugestum boðið í messukaffi í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Loðmundarfirði. Þar voru veitingarnar ekki af verri endanum; heimabakað í ýmsum útgáfum, svo sem kleinur og skúffukaka.

Sr. Þorgeir kom aftur til starfa sem Egilsstaðaprestur í síðustu viku, eftir að hafa búið með fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum síðasta árið. „Síðasta messan mín í fyrra, áður en við fórum utan, var á Klyppstað og nú tók ég upp þráðinn þar sem frá var horfið á þeim stað,“ segir Þorgeir. Vestra stundaði hann nám við lúterska prestaskólann í Chicago og nam þar hagnýta guðfræði með áherslu á helgisiði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »