Óeining um aðgerðir

Með aðgerðunum, sem taka gildi 26. júlí nk., verður erfiðara …
Með aðgerðunum, sem taka gildi 26. júlí nk., verður erfiðara fyrir þá sem eru bólusettir gegn Covid-19 að komast til landsins en áður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágreiningur var við ríkisstjórnarborðið um eðli og umfang sóttvarnaaðgerðanna sem þar voru til umfjöllunar í gær. Sjálfstæðismenn töldu tillögur heilbrigðisráðherra ganga of langt en sögðu að mótbárur þeirra hefðu þó haft þær afleiðingar að til mildari aðgerða hefði verið gripið en lagt var upp með. Meðal þingmanna flokksins gætir þó efasemda um þær, þá helst að sýnt sé að þær ráðstafanir sem nú er verið að grípa til hafi þau sértæku áhrif sem ætlunin er.

Ekki síst voru það þó orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið sem fóru fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum. „Sjálfstæðismenn hafa auðvitað komið fram með efasemdir um ýmsar sóttvarnaráðstafanir, í raun frá upphafi faraldursins,“ sagði heilbrigðisráðherra og bætti við að eftirtektarverður árangur í baráttu við kórónuveiruna hefði náðst í andstöðu þeirra.

„Kosningabaráttan er greinilega hafin,“ sagði einn þingmaður flokksins í samtali við Morgunblaðið og taldi ummælin ekki til þess fallin að auka samheldni innan ríkisstjórnarinnar eða einingu um sóttvarnaaðgerðir. „Markmiðið með þessum orðum hennar er öllum ljóst,“ sagði annar þingmaður og sagði viðbrögðin innan þingflokksins misjöfn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur ekki þörf á íþyngjandi aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins hér á landi. Heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra telja að þær aðgerðir sem tilkynntar voru í gær séu mildar. Áslaug segir um að ræða þyngri kröfur en í öðrum Evrópulöndum.

Í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag segir Áslaug ekki hægt að koma í veg fyrir það að veiran berist hingað til lands og að líklegt megi teljast að hún sé komin til að vera í einhverri mynd.

Aðgerðirnar vonbrigði

Áslaug bendir á að hættan á að alvarleg fjöldaveikindi verði heilbrigðiskerfinu ofviða sé ekki lengur fyrir hendi miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Er það vegna útbreiddrar bólusetningar gegn Covid-19.

Í samtölum ráðherra við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfundinn í gær mátti greina minni einingu um sóttvarnaaðgerðir en áður. Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði það vonbrigði að grípa þyrfti til aðgerða og að ákveðins ósamræmis gætti í aðgerðum og yfirlýsingum stjórnvalda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »