Sex í varðhaldi eftir slagsmál í miðbæ Akureyrar

Sex voru handteknir eftir slagsmálin í miðbæ Akureyrar. Hinn slasaði …
Sex voru handteknir eftir slagsmálin í miðbæ Akureyrar. Hinn slasaði hefur verið fluttur á sjúkrahús. Ljósmynd/Aðsend

Sex eru í varðhaldi eftir mikil slagsmál sem brutust út fyrir utan Bláu könnuna í miðbæ Akureyrar um níuleytið í kvöld. Einn hefur verið fluttur á sjúkrahús. Þetta staðfestir Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Akureyri. 

Að sögn sjónarvottar hófust slagsmálin innandyra og þróuðust með þeim hætti að stokkið var á hinn slasaða svo hann lenti á rúðu staðarins með þeim afleiðingum að hún brotnaði og hlaut hann alvarleg meiðsl á handlegg. Mikið blóð var á vettvangi og ástandið ískyggilegt að sögn vitnisins. 

„Hann fer í gegnum rúðuna og tekur í sundur efri vöðva á handlegg og blóðið spýtist út um allt. Mér fannst lögreglan vera ansi lengi á staðinn, það var búið að hringja á lögregluna en hún kom ekki fyrr en tíu mínútum síðar,“ segir sjónarvotturinn.

Málið er til rannsóknar og fást ekki frekari upplýsingar um það í bili, að sögn lögreglu.

mbl.is