Yngri en 25 ára mega ekki tjalda

25 ára aldurstakmark enda er um að ræða fjölskyldusvæði.
25 ára aldurstakmark enda er um að ræða fjölskyldusvæði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bara allt fullt hjá okkur,“ segir Katrín Ósk Sveinsdóttir en hún tók við tjaldsvæðinu á Flúðum í mars síðastliðnum. Fyrstu helgarnar í júlí hafi verið stappfullar og veður gott. Þá megi búast við svipaðri stöðu út sumarið. Katrín er Akureyringur að uppruna, bjó á Eyrarbakka þar til þau í fjölskyldunni ákváðu að kaupa hús á Flúðum.

„Það var alveg stórt verkefni,“ segir hún. „Að undirbúa tjaldsvæðið og vera ný yfir,“ segir hún um hvernig undirbúningsvinnan hefur gengið.

Spurð hvað fólk geri mest um helgar á Flúðum segir hún allan gang á því. „Fólk hangir yfirleitt bara á svæðinu hérna. Er mest að hittast í hópum.“ Þá eru vinsælar gönguleiðir allt í kringum tjaldsvæðið. „Það er til dæmis Miðfellið hérna.“

„Það hlusta auðvitað allir meira á lögguna“

Og það er 25 ára aldurstakmark?

„Já. Það var einu sinni 23 ára aldurstakmark en það gekk ekki þannig að nú er það 25. Þetta er fjölskyldusvæði,“ segir Katrín en aldurstakmark var sett á fyrir hennar tíð.

Spurð hvort einhverjum undir 25 ára hafi tekist að laumast inn á svæðið í leit að gleðskap segir hún það ekki hafa gerst hingað til í sumar. „Nei, við höfum ekki fengið það ennþá en nú á föstudaginn voru menn með hávaða og læti alveg fram eftir morgni.“

Aðspurð hvort þessir gestir hafi verið undir aldri svarar Katrín: „Nei, þetta voru nú bara fullorðnir menn.“

Gerðu mennirnir varðeld í grasinu og létu sér ekki segjast fyrr en lögregla var kölluð til.

„Þeir fengu séns og voru til friðs eftir að löggan talaði við þá. Það hlusta auðvitað allir miklu meira á lögguna en okkur,“ segir Katrín glettin.

„Það er bara allt fullt hjá okkur,“ segir Katrín Ósk …
„Það er bara allt fullt hjá okkur,“ segir Katrín Ósk Sveinsdóttir en hún tók við tjaldsvæðinu á Flúðum í mars síðastliðnum mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölskyldustemning á Flúðum, stuðið í Eyjum

Verslunarmannahelgin er á næsta leiti og segist Katrín búast við að fá til sín krakka í leit að gleðskap. Spurð hvort hún búist við að skiltið hjálpi til við að halda þeim úti svarar hún neitandi. „Nei, ég stórefa það. Við verðum með hlið,“ segir hún en engum sem ekki hefur náð tilsettum aldri verður gert að bóka pláss.

„Jæja þá fer maður bara með fjölskyldunni, eða kannski maður kíki bara til Vestmannaeyja,“ segir blaðamaður sem enn á eitt ár í að ná tilsettum aldri.

„Já þar sem allt stuðið verður, akkúrat,“ segir Katrín og á við um Eyjar en segist þó búast við fjölskyldustemningu og fjöri á tjaldsvæðinu enda fyrsta verslunarmannahelgin í tvö ár án samkomutakmarkana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert