Aflýsa hátíðinni Flúðir um versló

Ákveðið hefur verið að aflýsa hátíðinni í ár.
Ákveðið hefur verið að aflýsa hátíðinni í ár. Ljósmynd/Facebook síða Flúðir um Versló

Hátíðin Flúðir um versló mun ekki fara fram í ár. Þetta kemur fram í færslu á facebooksíðu hátíðarinnar.

Þar segir að ákvörðunin sé þungbær en vonast sé til að hátíðin komi bæði stærri og sterkari til baka að ári liðnu.

Verum örugg og hugum mjög mjög vel að persónulegum smitvörnum. Látum ekki pestina hafa meira af okkur,“ segir einnig í tilkynningunni.

Vilja ekki stuðla að því að fólk komi saman

Bergsveinn Theodórsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, segir í samtali við RÚV að í ljósi aukninga smita í samfélaginu vilji skipuleggjendur ekki stuðla að því að fólk komi saman.

Tvö kór­ónu­veiru­smit greind­ust á lista­hátíðinni LungA sem fram fór á Seyðis­firði um helg­ina. Fram kem­ur í til­kynn­ing­u frá LungA að ekki sé um hópsmit að ræða, en gest­ir hátíðar­inn­ar eru hvatt­ir til að fylgj­ast með ein­kenn­um og fara í sýna­töku ef ein­kenni koma fram.

Í samtali við mbl.is segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að tillögur að aðgerðum innanlands séu í skoðun. Spurður hvort takmarkanir verði settar á til að koma í veg fyrir að þjóðhátíð og aðrar hátíðir um verslunarmannahelgina fari fram segist hann ekki geta sagt til um það.

Hann seg­ir rann­sókn­ir sýna að bólu­setn­ing veiti góða vernd gegn al­var­leg­um sjúk­dóm­um og dauðsföll­um, eða um 90 pró­sent. Hins veg­ar sé veir­an mjög smit­andi og al­var­legt ástand gæti skap­ast ef marg­ir smituðust, þó að eig­in­legt hlut­fall al­var­lega veikra væri lágt.

mbl.is