Arnar búinn að kæra forstjóra ÁTVR

Arnar Sigurðsson og Ívar Arndal.
Arnar Sigurðsson og Ívar Arndal. Samsett mynd

Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, hefur lagt fram kæru á hendur Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR, fyrir rangar sakargiftir.

Í tilkynningu sem að Arnar sendi frá sér í dag segir: „Forstjóri ÁTVR hefur vísvitandi haldið fram röngum sakargiftum og sakar Santewines.sas með lögfesti í Frakklandi um lögbrot þar sem félagið hafi ekki virðisaukaskattsnúmer og skili ekki lögbundnum gjöldum.“

Í tilkynningunni segir einnig að áðurgreindar ásakanir séu rangar og að félagið hafi bæði virðisaukaskattsnúmer og kennitölu hér á landi. Hann bendir á að rangar sakargiftir séu refsivert athæfi, og þeim mun alvarlegra sé þeim haldið fram af opinberum embættismanni.

Fram kemur einnig að ÁTVR sé hvorki hagsmunaaðili né að rannsóknarskylda hvíli á stofnuninni er varðar sölufyrirkomulag áfengis á Íslandi.

Einnig bendir hann á að ÁTVR hafi ekki gert athugasemdir við að erlendar netverslanir selji vín í samkeppni við einokunarverslanir stofnunarinnar. Hins vegar þegar að almenningur geti gert hagstæðari innkaup með sambærilegum hætti þá sé stólað á að hið opinbera leggi stofnuninni til enn ríkara boðvald til þess að afnema þann ávinning sem hlýst af því að fá vörur beint og milliliðalaust af tollafgreiddum vörulager hér á landi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert