Ekkert annað í stöðunni en að hátíðin fari fram

Bræðslan er tónlistarhátíð á Borgarfirði eystra og var hún fyrst …
Bræðslan er tónlistarhátíð á Borgarfirði eystra og var hún fyrst haldin árið 2005. Aldís Fjóla B. Ásgeirsdóttir

„Eins og staðan er núna eru engar takmarkanir, við vitum að það er umræða um þær en á meðan það er bara umræða einhvers staðar þá getum við ekki brugðist við því,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar sem fer fram um helgina.

Bræðslan er tónlistarhátíð á Borgarfirði eystra og hefur verið haldin ár hvert frá 2005, henni var þó aflýst í fyrra sökum faraldursins.

„Við erum auðvitað búin að stilla upp fyrir hátíðina, listamenn á leiðinni og gestirnir margir komnir. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að þetta er hundleiðinleg staða og við erum alveg jafn svekkt með þetta eins og allir hinir, en miðað við stöðuna í dag þá ætlum við að halda okkar striki og vanda okkur eins og við mögulega getum.“

Hjálpa gestum við persónubundnar sóttvarnir

„Við ætlum að gera þetta eins vel og við mögulega getum, auðvitað lítil hátíð og þetta er aðallega fjölskyldufólk og fólk á miðjum aldri. Þannig að við ætlum bara að vanda okkur eins og við mögulega getum og svo einfaldlega höfðum við til okkar gesta um að þeir passi sig eins og þeir mögulega geta,“ segir Áskell.

Hann segir að gestum hátíðarinnar verði hjálpað við þeirra persónubundnu sóttvarnir og farið eftir þeim reglum sem í gildi verða.

„Við erum búin að verða okkur úti um mikið af spritti, þannig að gestir geti sprittað sig, við ætlum að bjóða gestum okkar upp á að bera grímur, við munum sem sagt vera með grímur fyrir gestina okkar ef þeir vilja það.“

mbl.is