Hryðjuverkin í Útey „glæpur gegn mennskunni“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hryðjuverkin í Útey 22. júlí 2011 hafa verið glæp gegn mennskunni. Dagurinn minni á að frjáls, opin og jöfn samfélög séu ekki sjálfgefin og fáist ekki baráttulaust.

Katrín minnist atburðanna í Útey og Ósló í færslu á Facebook sem birtist einnig í norska fréttamiðlinum Trønderdebatt í dag. Þar rifjar hún upp að hún hafi verið í fæðingarorlofi frá starfi sínu sem mennta- og menningarmálaráðherra þegar hryðjuverkin áttu sér stað.

Ég var því heima þegar fyrstu fréttir bárust af sprengingum í stjórnarráðshverfinu í Ósló. Ég sat límd við norskar fréttir eftir það enda sem betur fer ekki á hverjum degi sem slíkar fréttir berast frá vina- og frændþjóðum okkar. Fréttirnar áttu síðan eftir að verða miklu skelfilegri,“ skrifar Katrín.

Í dag velti ég fyrir mér hvar þau væru núna, þessi 77 ljós sem slökknuðu fyrir 10 árum, yfirgnæfandi meirihluti táningar. Hvert allir þessir lífsþræðir sem skyndilega og sorglega voru rofnir hefðu legið og hvað þeir hefðu lagt til umhverfis síns, fjölskyldu, samfélags, heimsins.“

Orðið frændþjóð hafi merkingu og innihald 

Katrín segir í færslu sinni að þegar stóráföll komi upp, líkt og samfélagið hafi verið minnt á síðustu misseri, „sjáum við vanmátt okkar og leitum ósjálfrátt til hvort annars“. Dagurinn í dag sé áminning um að vinna þurfi stöðugt að því að skapa kærleiksríkt samfélag fjölbreytileika á sama tíma og hann er þungur í sinni. 

22. júlí minnir okkur á að að frjáls, opin og jöfn samfélög eru ekki sjálfgefin og fást ekki baráttulaust. Allt okkar starf er stöðug varðstaða um þau gildi sem gera okkur að því sem við erum. Hann minnir líka á tengslin. Minnir á að orðið frændþjóð hefur merkingu og innihald. Við erum og verðum fjölskylda,“ segir Katrín. 

Að lokum segir Katrín mikilvægt að gleyma ekki að ekkert dugi gegn slíkum voðaverkum og áttu sér stað fyrir tíu árum nema samstaða um að leyfa þeim ekki að gerast. 

Fjöldamorðin í Útey voru glæpur gegn mennskunni. Börn og ungmenni létu lífið í nafni öfgasinnaðrar hægri-þjóðernisstefnu. Börn og ungmenni sem öll voru kraftaverk í augum foreldra sinna. Börn og ungmenni sem voru vitnisburður um fegurð mennskunnar. Nú þegar við minnumst þessara voðaverka þá skulum við sammælast um að standa vörð um mennskuna. Gleymum aldrei að ekkert dugir gegn slíkum voðaverkum nema samstaða góðra manna um að leyfa þeim ekki að gerast. Það gerum við til að heiðra minningu þeirra sem dóu í Útey en líka til að verja börn og ungmenni dagsins í dag,“ segir Katrín. 

mbl.is