Íbúar bíða svara frá sveitarfélaginu

Hreinsað upp eftir aurskriðu sem féll á tvö hús í …
Hreinsað upp eftir aurskriðu sem féll á tvö hús í Varmahlíð. mbl.is/Helgi Bjarnason

Þrjár vikur eru liðnar frá því að aurskriða féll úr vegbrún á tvö hús við Laugarveg í Varmahlíð í Skagafirði. Talsvert tjón varð á húsunum en tilviljun réð því að enginn var heima þegar skriðan féll.

Íbúar í Varmahlíð óskuðu eftir að stjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar héldi með þeim fund og veitti upplýsingar um stöðu mála í kjölfar aurskriðunnar. Fundurinn átti að fara fram í gær en var frestað um óákveðinn tíma.

Bryndís Rut Haraldsdóttir býr í öðru húsinu sem skriðan féll á. Hún segir frestun fundarins ekki leggjast vel í íbúa. „Fólk vill sjá svör og aðgerðir því það finnur fyrir óöryggi á svæðinu. Þetta er ekkert grín,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Bryndís Rut og maður hennar, Alex Már Sigurbjörnsson, voru bæði í vinnu þegar skriðan féll á húsið þeirra. Mikil vinna fór í að hreinsa húsið eftir aurskriðuna, að sögn Bryndísar.

„Við þurftum að skipta út öllu gólfefni og innihurðum í íbúðinni. Þá fór svolítill raki inn í veggina svo við þurftum að klæða þá upp á nýtt. Við tókum líka niður innbyggða fataskápa og hentum þeim,“ segir hún.

Með góðri hjálp gátu Bryndís og Alex þó hreinsað nógu vel út úr húsinu til að þau gætu flutt inn í það aftur. Bryndís er fyrirliði fótboltaliðs Tindastóls í Pepsi Max-deild kvenna og komu samherjar hennar í liðinu henni og Alexi til hjálpar þegar á reyndi. „Þeir hjálpuðu mér að tæma húsið, mála og taka dótið mitt einhvern veginn saman. Það munar um hvern mann í svona verkefni,“ segir Bryndís. Tjónið sem varð á húsinu er þó meira en við var að búast að sögn hennar. „Það á eftir að taka allt gler á norðurhliðinni og mögulega eitthvað á austurhliðinni líka. Það rispaðist allt út af grjóti og svo brotnaði ein rúða. Það þurfti svo að háþrýstiþvo þetta allt og skipta um glerlista,“ segir Bryndís. „Svo þarf að mála húsið að utan því það komu rispur á það en það er bara eins og það er. Það er margt smátt sem tínist saman sem gerir þetta að svolítið stóru verki.“

Samkvæmt upplýsingum frá Ingvari Páli Ingvarssyni, verkefnastjóra á veitu- og framkvæmdasviði sveitarfélagsins Skagafjarðar, gengur hreinsunarstarf á svæðinu vel. „Grófhreinsun er lokið og uppbygging, styrking og drenering hafin á svæðinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert