Ingó syngur ekki lengur inn á afmælistón Nova

Ekki heyrist lengur í Ingó Veðurguð þegar hringt er í …
Ekki heyrist lengur í Ingó Veðurguð þegar hringt er í afmælisbörn í viðskiptum við Nova. mbl.is/Árni Sæberg

Þeir sem eiga vini og vandamenn í viðskiptum við símfyrirtækið Nova kannast án efa við lagstúfinn sem heyrist þegar hringt er í viðkomandi á afmælisdegi þeirra.

Í mörg ár hefur heyrst lagstúfur við þetta tilefni, sunginn af Ingólfi Þórarinssyni, Ingó veðurguði, sem hefst svo:

„Ég fæ einn pakka í dag, ótrúlega margar flottar kveður í dag...“

Því er þó ekki lengur að heilsa. 

„Við höfum lengi verið með sama afmælistóninn sem eftir ábendingu frá fjölmörgum viðskiptavinum var ákveðið að breyta. Áfram er hægt að nálgast eldri tóna og hver og einn getur valið sinn vinatón,“ segir Margrét Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Nova, við mbl.is. 

Í dag má heyra lagið Afmæli í flutningi sveitarinnar Á móti sól þegar hringt er í afmælisbörn í viðskiptum við Nova.

Margrét Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Nova.
Margrét Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Nova. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptavinir bentu á að þeim mislíkaði vinatónn Ingós

Vinatónar Nova eru fyrir löngu orðnir þekkt menningarfyrirbæri. Þeir virka þannig að lagbútur heyrist þegar hringt er í viðskiptavin Nova og beðið þar til viðkomandi tekur upp tólið og svarar. Hver getur valið sinn tón úr hundruðum, ef ekki þúsundum, lagbúta. 

Svo þegar viðskiptavinur Nova á afmæli er honum boðið að velja svokallaðan afmælistón, sem þá heyrist þegar hringt er í afmælisbarnið. Eins og fyrr segir hefur Ingó veðurguð gegnt því hlutverki að stytta fólki biðina eftir að afmælisbörn svari í símann, en nú hefur því verið breytt. 

Ingó var enda sakaður á dögunum um kynferðisofbeldi og deildu margar konur sögum sínum af meintu ofbeldi á samfélagsmiðlum. Þær ásakanir komu í kjölfar þess að önnur bylgja #metoo-byltingarinnar reið yfir íslenskt þjóðfélag, eftir að Sölvi Tryggvason dagskrárgerðarmaður var sakaður um, og loks kærður fyrir, kynferðisofbeldi. 

Án þess að nefna neitt slíkt, segir Margrét að viðskiptavinir fyrirtækisins hafi einfaldlega bent á að þeim mislíkaði afmælistónn veðurguðsins og því hafi verið ákveðið að breyta. 

„Við hlustum á okkar viðskiptavini, erum ekki að taka afstöðu en viljum tryggja að öllum líði vel á dansgólfinu hjá Nova,“ segir Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert