Innipúkinn reynir að takmarka skaðann

Hátíðin Innipúkinn hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár.
Hátíðin Innipúkinn hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár. mbl.is/Freyja

„Síðustu daga þá höfum við sett stopp á þá liði undirbúningsins sem bera með sér mikinn kostnað, til þess að reyna að takmarka skaðann,“ segir Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, hátíðar sem fram á að fara í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tilkynnti í morgun að hann hygðist leggja til aðgerðir innanlands til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Búist er við því að ríkisstjórnin taki afstöðu til minnisblaðs Þórólfs á morgun.

„Við þurftum að aflýsa hátíðinni með dags fyrirvara á síðasta ári, þannig að núna höfum við þá alla vega nokkra daga ef þetta fer á versta veg.“

Þórólf­ur hefur sagt að eftir viðburði á borð við Þjóðhátíð og aðrar útihátíðir, þar sem þúsund­ir koma sam­an, gætu greinst hundruð eða þúsund­ir kór­ónu­veiru­smita.

Hann seg­ir ekki þurfa nema einn smitaðan ein­stak­ling til þess að koma af stað ansi mik­illi út­breiðslu veirunn­ar á slíkum viðburðum.

Upplitsdjarfir og bjartsýnir

„Við vitum jafn lítið og aðrir hvað sóttvarnalæknir hyggst leggja til, hvort þetta tengist jafnvel bara afgreiðslutímum eða hvort þetta séu fjöldatakmarkanir á samkomum eða hvernig það verður,“ segir Ásgeir.

„Við erum bara upplitsdjarfir og bjartsýnir og tökum því sem kemur bara beint á kassann, eins og öllu saman.“

mbl.is