Ísland líklegt á appelsínugulan lista

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld í Noregi munu á morgun tilkynna um breytingar á lista yfir lönd sem Norðmönnum er heimilt að ferðast til með takmörkunum.

Fram kemur í frétt VG að eftir smittölur dagsins hér á landi sé líklegt að Ísland fari úr því að vera grænt land í að vera appelsínugult. 

Það þýðir að þeir sem hafa heimild til að ferðast til Noregs frá Íslandi þurfi að sýna fram á neikvætt PCR-próf, fylla út sérstök skráningarform, fara í sýnatöku við komuna til Noregs og sóttkví í kjölfarið.

Taka gildi á mánudag

Ólíkt því sem á við um rauð lönd geta þeir sem koma frá Íslandi verið í sóttkví heima hjá sér, fari svo að Ísland verði skilgreint sem appelsínugult land. Sem stendur eru ferðir á milli Íslands og Noregs takmarkalausar. 

Sem áður segir verða breytingar á landamærareglum kynntar á morgun og taka þær gildi á mánudag. Aðra hverja viku gera stjórnvöld breytingar sem fela í sér að opna á fleiri lönd og aðra hverja viku eru kynntar breytingar um takmarkanir á ferðalögum. 

Takmarkanir á landamærum Noregs ná til óbólusettra og þeirra sem hafa fengið einn skammt bóluefnis en eru ekki fullbólusettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert