Legstaðurinn í kirkjuveggnum

Til vinstri við altarið eru minningarskildir um Kristján Eldjárn forseta …
Til vinstri við altarið eru minningarskildir um Kristján Eldjárn forseta og frú Halldóru Eldjárn og svo Svein Björnsson forseta og frú Georgíu Björnsson. Hægra megin er minningarskjöldurinn um Ásgeir Ásgeirsson forseta og frú Dóru Þórhallsdóttur. Ljósmynd/hsh

„Ég var að leita í legstaðaskránni (gardur.is) að manni sem hét Ásgeir Ásgeirsson og fletti fram og til baka. Þá áttaði ég mig á því að þar vantaði nafn Ásgeirs Ásgeirssonar forseta og einnig nafn konu hans Dóru Þórhallsdóttur. Mér þótti það forvitnilegt og vakti athygli á þessu,“ segir séra Hreinn S. Hákonarson, ritstjóri Kirkjublaðsins (kirkjubladid.is). Hann birti þar greinina Þau hvíla í kórveggnum um leit sína að legstað forsetahjónanna.

Hreinn komst að því að duftker þeirra hjóna eru geymd í kórvegg Bessastaðairkju, hægra megin við altaristöfluna, og á bak við minningarskjöld með nöfnum þeirra. Vinstra megin við altarið eru skildir til minningar um Svein Björnsson og Georgíu Björnsson og Kristján Eldjárn og Halldóru Eldjárn. Hreinn segir þá spurningu áleitna hvers vegna Ásgeir vildi láta varðveita ösku sína á þennan hátt.

Frú Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson forseti. Dóra lést 1964 …
Frú Dóra Þórhallsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson forseti. Dóra lést 1964 og Ásgeir 1972. Ljósmynd/Ólafur K Magnússon

„Við getum velt því fyrir okkur hvort Ásgeir hafi viljað halda uppi virðingu forsetaembættisins með því. Líklega hafði Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, einnig í huga að láta grafa duftker sitt í Bessastaðakirkju. Svo var kirkjunni umturnað milli 1945 og 1948 og Sveinn var mjög ósáttur við þær breytingar. Georgía Björnssson ekkja hans ákvað að hann skyldi því ekki hvíla í kirkjunni,“ segir Hreinn. Í legstaðaskránni eru tvær misvísandi setningar um Svein, að sögn Hreins.

„Önnur segir að duftker hans sé varðveitt í Bessastaðakirkju en hin að það sé varðveitt í reit 84 sem er norðanmegin við kirkjuna. Hann hvílir norðanmegin ásamt skáldinu Grími Thomsen og frú Georgíu eiginkonu sinni.“

Legstaður tilgreindur í dagbók

Hann komst að því að í Dagbók bálstofu hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmis var skráð að jarðneskar leifar forsetahjónanna Ásgeirs og Dóru væru í Bessastaðakirkju. Í legstaðaskránni eru tilgreindir grafreitir í Bessastaðakirkjugarði, þar á meðal grafreitur 85 inni í kirkjunni. Þar voru skráð nöfn Magnúsar Gíslasonar amtmanns (d. 1766), konu hans Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1766), Páls Stígssonar hirðstjóra (d. 1566) og Matthíasar Söfrensen fógeta (d. 1651). „Síðast voru þau Magnús amtmaður og Þórunn kona hans jörðuð í kirkjugólfi Bessastaðakirkju. Nöfn forsetahjónanna Ásgeirs og Dóru hafi þegar verið skráð í þennan reit 85,“ segir Hreinn.

Hann segir ótrúlega marga ekki vita af duftkerum þeirra Ásgeirs og Dóru í kirkjuveggnum. Dóra lést 10. september 1964 og var því fyrst gengið frá duftkeri hennar á þessum stað. Duftker Ásgeirs var sett þar eftir andlát hans 15. september 1972. Önnur forsetahjón hafa ekki fengið þar hinstu hvílu. Forsetahjónin Kristján Eldjárn og Halldóra Eldjárn voru jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Guðrún Katrín Þorbergsdóttir forsetafrú var jarðsett sunnan við Bessastaðakirkju.

Hreinn nefnir að í Hóladómkirkju séu einar átta grafir. Þar eru m.a. grafin Guðbrandur Þorláksson biskup, Halldóra Guðbrandsdóttir og fleiri. Legsteinarnir eru í gólfinu. Þetta var lenska fyrr á tímum.

„Ég hef aðeins fundið tvær ritaðar heimildir frá þessari öld þar sem greint er frá legstað Ásgeirs og Dóru. Það er annars vegar í færslu um Bessastaðakirkju á Íslenska ferðavefnum (https://is.nat.is/bessastadakirkja/). Hins vegar í bók Tryggva Pálssonar, barnabarns þeirra hjóna, Ásgeir Ásgeirsson – maðurinn og meistarinn [Reykjavík 2019],“ bætir Hreinn við.

Hann bendir á það í greininni að svo virðist sem sá gjörningur að leggja duftker forsetahjónanna í kórvegg Bessastaðakirkju hafi ekki verið í samræmi við þágildandi lög. Samkvæmt lögum um kirkjugarða sem þá giltu var óheimilt að varðveita duftker annars staðar en í kirkjugarði. Eins var bannað að taka gröf innan kirkju.

Að sögn Hreins var síðast jarðsett í kirkju hér á landi árið 1997. Ísafjarðarkirkja brann á síðustu öld og var ný og stærri kirkja byggð á sama stað 1991. Nýbyggingin náði yfir nokkur leiði. Settur var upp minningarskjöldur um þau sem hvíldu undir kirkjugólfinu en eitt grafstæðið var frátekið fyrir eiginkonu þess sem þar hvíldi. Þegar hún lést var kirkjugólfið rofið og konan jarðsett við hlið manns síns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert