Liðsfélagi Gylfa öskuillur

Samsett mynd

Fabian Delph, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, er að sögn The Athletic öskuillur yfir því að félagið hafi ekki greint frá því með skilmerkilegri hætti að hann væri ekki leikmaðurinn sem hefði verið handtekinn vegna gruns um brot gegn ólögráða einstaklingi. Heimildir mbl.is herma að Gylfi Þór sé umræddur leikmaður.

Delph og Gylfi eru einu 31 árs leikmenn liðsins en í tilkynningu frá lögreglunni í Manchester var greint frá því að sá grunaði væri 31 árs og kvæntur. Hvorugur þeirra flaug með liðinu til Bandaríkjanna á æfingamót í síðustu viku en Everton hefur þegar greint frá því að Delph hafi verið í sóttkví fyrir brottför.

Gylfi sagður hafa ráðið öryggisgæslu

Samkvæmt The Athletic hefur Gylfi ráðið sér öryggisgæslu vegna málsins, götublöðin The Sun og Daily Mail greindu nýverið frá því að Everton hefði komið Gylfa fyrir í skjólhúsi með sólarhringsgæslu á meðan Alexandra Ívarsdóttir, eiginkona hans, dvelur á Íslandi.

Fabian Delph á að vera öskuillur yfir því hvers lags stöðu Everton hefði komið honum og fjölskyldu hans í með tilkynningu sinni. Hann ætli nú að hafa hljótt um sig þar til það sé algjörlega ljóst að hann er ekki sá grunaði.

Erfið byrjun fyrir nýja stjórann

Everton réð nýlega nýjan stjóra, Rafael Benítez í stað Carlo Ancelotti, en fyrstu vikurnar hans í starfi hafa verið erfiðar. Félagið hefur neyðst til að rifa seglin á samfélagsmiðlum á meðan mál Gylfa er til rannsóknar en iðulega reyna félögin að tefla fram glansmynd af leikmannahópnum á þessum tíma árs áður er keppnistímabilið hefst.

Breska götublaðið The Sun hefur greint frá erfiðri stemningu innan leikmannahóps Everton eftir uppgötvunina. Haft er eftir heimildarmanni þeirra innan Everton: „Liðsfélagar hans voru furðu lostnir, þeir höfðu ekki hugmynd um málið fyrr en félagið sagði þeim frá því. Sá handtekni er afar vinsæll innan hópsins svo þeir eiga bágt með að trúa þessu.“ 

mbl.is