Slökktu eld í álverinu í Straumsvík

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í dag að álverinu …
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í dag að álverinu í Straumsvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði við slökkvistarf í álverinu í Straumsvík um klukkan 14 síðdegis. Eldur kom upp í skúr á svæðinu þar sem alls kyns rafmagns- og tæknibúnaður er og því þurfti að hafa snör handtök. 

Aðgerðir gengu vel að sögn varðstjóra en ekki er vitað um tjónið sem hlaust af eldinum. Þar sem mikið er um flókinn og dýran búnað má þó gera ráð fyrir að skaði sé einhver. 

Að öðru leyti segir varðstjóri að ekki hafi verið mikið um stærri verkefni í dag, en þó hafi samt sem áður verið nóg að gera. 

Covid-tengdir sjúkraflutningar hafa ekki verið sérstaklega margir það sem af er degi, en þeir hafa verið um og yfir 20 undanfarna daga. Af máli varðstjóra mátti ráða að þeir hafi verið mun færri það sem af er degi, en varðstjóri tók þó fram að óvíst væri hvernig kvöldið yrði. 

mbl.is