Sumar og sól og fólkið á ferðinni

Mikil aðsókn hefur verið í veitingastaði við höfnina á Húsavík.
Mikil aðsókn hefur verið í veitingastaði við höfnina á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Sumarið hefur komið sér vel fyrir á Norður- og Austurlandi meðan það forðast höfuborgarsvæðið. Meðalhiti síðustu tuttugu daga júlímánaðar í Reykjavík er 11,1 stig en á Akureyri hefur meðalhitinn verið 14,4 stig. Á norðan- og austanverðu landinu er þessi júlímánuður sá hlýjasti á öldinni. Hlýjasta veðurstöð landsins hefur verið við Upptyppinga, þar sem meðalhitinn hefur verið 14,8 stig, en það er á hálendinu, sem verður að teljast óvenjulegt. Þetta kemur fram í bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings, Hungurdiskum.

Margir nýta sumarfríið sitt til að elta sólina. Hafa því tjaldsvæði, veitingastaðir og gistiheimili á Austurlandi fundið vel fyrir því en í gær náði hitinn þar víða yfir 20 stigum.

Fólk kældi sig í Jökulsá á Dal við Brú og …
Fólk kældi sig í Jökulsá á Dal við Brú og stökk út í. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Eygló Björk Ólafsdóttir rekur ásamt manni sínum Móður jörð þar sem fram fer grænmetisræktun, veitingarekstur og starfræksla gistihúss. Eygló segir að það hafi verið gríðarlega mikið að gera, bæði á veitingastaðnum og við ræktunina enda hefur verið mikill þurrkur. „Við þurfum að hlaupa hratt á hvorum tveggja vígstöðvum,“ segir hún. Eygló bendir á að mörg fyrirtæki í ferðamannaþjónustu á landsbyggðinni séu undirmönnuð þar sem ekki hefur verið jafn aðgengilegt að ráða erlent vinnuafl á tímum Covid.

Í verslun Bónuss á Egilsstöðum var tekin ákvörðun í júní um að bæta við sérstakri ferð með birgðir allar helgar til þess að bregðast við aukinni eftirspurn ferðalanga á svæðinu. Otti Þór Kristmundsson, rekstrarstjóri Bónuss, segir að þótt verslunin hafi ekki lent í vöruskorti sé álagið gríðarlegt á starfsfólki og stundum myndist raðir á álagstímum. Sjálfsafrgeiðslukerfið reynist þó vel undir þessum kringumstæðum og flýtir fyrir afgreiðslu.

Dorgað.
Dorgað. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Í Nettó á Húsavík hefur fólk þó lent í því að koma að tómum hillum. Að sögn starfsmanns var glampandi sól á Húsavík í gær og flestir klæddir í stuttbuxur og hlýrabol. Grillmeti og drykkir rjúka út. „Maður fyllir á, snýr sér við og kíkir svo aftur en þá er hillan orðin hálftóm á nýjan leik.“ Nettó fylgist vel með veðurspánni þegar innkaup eru áætluð en verslunin á Húsavík er ekki vön svona mörgu fólki.

Starfsmaðurinn taldi Húsvíkinga þó ekki ósátta þótt ferðalangar kláruðu allt lambakjötið í búðinni. Telur hann frekar að þeir vorkenni starfsfólkinu vegna álagsins. Á Húsavík hefur veðrið verið ljúft í nánast allt sumar en starfsmaður Nettó segist ekki vera kominn með nóg af sólríkum dögum. „Mannlífið lifnar við, fólk er að labba úti og situr fyrir utan barina. Ekki hægt annað en taka því fagnandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert