Tjá sig ekki um hvort aðstoðarbeiðni hafi borist

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, og Gylfi Þór Sigurðsson …
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, og Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður. Samsett mynd

Yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs Ríkislögreglustjóra, Karl Steinar Valsson, segist hvorki geta staðfest né neitað því að aðstoðarbeiðni hafi borist íslenskum lögregluyfirvöldum frá lögreglunni á Englandi. 

Hann segist raunar ekkert getað tjáð sig um aðstoðarbeiðnir erlendra lögregluyfirvalda. Það sé almennt ekki viðeigandi. 

Það er því ekki ljóst hvort lögregluyfirvöld í Manchester, sem tilkynntu fyrir fáeinum dögum að þau hefðu handtekið karlmann grunaðan um brot gegn barni, sem heimildir mbl.is staðfestu síðar að væri Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður, hafi beðið lögregluyfirvöld á Íslandi um aðstoð við rannsóknina. 

Vissi til hvaða máls væri verið að vísa

Spurður hvort hann gæti gert sér í hugarlund til hvaða máls blaðamaður væri að vísa, svaraði Karl Steinar játandi, en ítrekaði þó að hann gæti ekki tjáð sig um aðstoðarbeiðnir erlendra lögregluyfirvalda. 

Fréttir hafa borist af máli Gylfa undanfarna daga. Hann er sagður vera til rannsóknar lögreglu í Manchester vegna gruns um brot gegn barni og erlendir miðlar hafa greint frá því að Gylfi neiti sök og að hann hafi verið færður í skjólshús (e. safe house). 

mbl.is hefur enn ekki náð tali af lögregluyfirvöldum í Manchester.

mbl.is