Veðurlag snúist við í næstu viku

Veður hefur verið með besta móti á Austurlandi í sumar.
Veður hefur verið með besta móti á Austurlandi í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búast má við suðlægum áttum og vætusömu veðri á sunnan- og vestanverðu landinu fram yfir helgi. Úrkomuminna verður norðaustanlands og áfram hlýindi, mest þó fyrir austan. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að í næstu viku leggist vindur smám saman í norðlæga átt, þ.a. veðurlag snýst við; norðurhelmingurinn fær vætu, en styttir upp syðra. Óhjákvæmilega fer þá hiti lækkandi, ekki síst á Norður- og Austurlandi. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag og laugardag:
Sunnan- eða suðvestan 3-10 m/s og dálítil rigning, en skýjað með köflum og stöku skúrir A-til. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast NA-lands.

Á sunnudag:
Sunnan og suðaustan 8-13 m/s og rigning S- og V-lands, en annars þurrt að kalla. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast eystra.

Á mánudag:
Norðvestlægar eða vestlægar áttir og víða rigning eða skúrir, en bjart með köflum A-til. Kólnandi veður.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir fremur svalar norðlægar áttir með vætu á N-verðu landinu, en lengst af þurrviðri og bjart syðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert