Ekkert hlustað á ábendingar íbúa

Íbúar við Hörgshlíð 2 eru ekki sáttir við nálægð göngu- …
Íbúar við Hörgshlíð 2 eru ekki sáttir við nálægð göngu- og hjólastígsins. mbl.is/Unnur Karen

Samráðsleysi, skortur á kynningu og skeytingarleysi Reykjavíkurborgar er það sem fer helst fyrir brjóstið á íbúum í Hörgshlíð 2 sem fylgjast nú með framkvæmdum út um gluggann hjá sér. Verið er að grafa göng undir Bústaðaveginn fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, en einnig á að gera stíg sem liggur að þeim. Á teikningum sést að stígurinn gengur í slaufu frá göngunum niður að lóðarmörkum Hörgshlíðar. Íbúar hússins eru ósáttir við þessi áform.

„Þeir eru að setja hér göngustíg sem sleikir lóðina hjá okkur. Hæðarmismunurinn er svo mikill að þetta er bara eins og útsýnispallur inn til okkar,“ segir Kristín Garðarsdóttir, formaður húsfélagsins.

Íbúarnir fréttu af fyrirhuguðum framkvæmdum í fréttum án þess að hafa fengið kynningu fyrirfram eða tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Að minnsta kosti fjórir íbúar höfðu samband við borgaryfirvöld út af málinu til þess að koma á framfæri ábendingum og óska eftir skýringum. Engin svör fengust nema þegar Björn Eysteinsson, einn íbúanna, náði tali af Pavel Bartoszek borgarfulltrúa. Jákvæði punkturinn var að fá svör, en ekki var tekist á um málið efnislega að sögn Björns.

Björn bendir á að malbikaður og upplýstur göngustígur liggi frá Veðurstofunni og vestur fyrir moskuna en sé lítið notaður. Íbúarnir skilja því ekki hvers vegna borgin sé að eyða fjármunum í annan göngustíg á sama svæði og finnst skorta á að ákvörðunin sé rökstudd og útskýrð. Kristín kveðst hafa fengið þau svör að stígurinn væri til þess að börn í Hlíðaskóla kæmust í Valsheimilið. Hún telur þó útséð um að börnin muni nota stíginn. „Þau fara bara inn í Litluhlíðina og upp göngustíginn þar. Fara ekki upp brekku og inn á göngustíginn í einhverja slaufu sem lengir leiðina,“ segir hún.

Þegar íbúar höfðu samband vegna framkvæmdanna var þeim sagt að boðað hafi verið til nágrannakynningar í febrúar í fyrra. „Ekkert okkar og enginn í götunni sem við þekkjum, minnist þess að hafa fengið boð á þann fund, þetta hljóta bara að hafa verið borgarfulltrúar og starfsmenn,“ segir Björn.

Íbúum þykir þessi framkoma ekki vera borgarfulltrúum eða starfsmönnum borgarinnar til sóma. Það sé ekkert hlustað á ábendingar íbúanna þrátt fyrir þetta gríðarlega rask beint fyrir utan gluggann hjá þeim. „Það er ekki kynning, ekki samráð og svo þegar maður reynir að falast eftir samráði þá er ekki tekið vel í það,“ segir Kristín, en íbúar hafa reynt að hafa áhrif í rúmt ár án árangurs. Hún bendir einnig á að ekki sé gert ráð fyrir vegriði á nýjum teikningum þótt það hafi margsannað gildi sitt öryggisins vegna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »