Kort af eldstöðvum til styrktar björgunarsveitum

Tómas Guðbjartsson afhendir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrsta eintakið …
Tómas Guðbjartsson afhendir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrsta eintakið af kortinu. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Göngu- og örnefnakort af eldstöðvunum í Geldingadölum er nú fáanlegt í útivistarverslunum og á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Rafræn útgáfa kortsins er einnig fáanleg á vef Ferðafélags Íslands, fi.is. Tómas Guðbjartsson, einnig þekktur sem Lækna-Tómas, er einn höfunda kortsins og jafnframt stjórnarmaður í FÍ. Hann segir vonir standa til þess að kortið hvetji fleiri að gosinu og beini þeim jafnframt á bestu leiðina að því.

„Ég gekk þarna upp að gosinu alveg í upphafi ásamt Haraldi Erni Ólafssyni og var alveg bergnuminn. Ég hef lagt leið mína þangað býsna oft síðan,“ segir Tómas en honum þótti strax vanta einhvers konar örmerkjaskrá á svæði sem að hans mati hefði að geyma mörg skemmtileg örnefni á borð við Litla-Hrút, Stóra-Hrút og Langahrygg.

Tómas á vettvangi stuttu eftir að gosið hófst.
Tómas á vettvangi stuttu eftir að gosið hófst. Ljósmynd/Haraldur Örn Ólafsson

Í stíl gamalla danskra korta

Kortinu er ætlað að hvetja fólk til gönguferða um Reykjanes og að kanna mismunandi leiðir að gosinu. Þar að auki sé ætlunin að beina fólki á fyrirframtroðna slóða til þess að koma í veg fyrir óþarfa gróðurskemmdir og átroðning á svæðinu.

Hið prentaða kort er að sögn Tómasar svolítið „retró“. Það minni einna helst á gömul dönsk herkort sem voru gefin út í upphafi síðustu aldar.

Snúið að hanna kort af síbreytilegu svæði

Hann viðurkennir að það sé nokkuð snúið að prenta kort af svæði sem breytist daglega. „Þetta er mikil áskorun en við reynum að svara henni með því að gefa fólki aðgang að stafrænu korti samhliða hinu prentaða. Það er QR-kóði á því sem fólk getur skannað inn á símann sinn en hið rafræna uppfærist reglulega í samræmi við nýjustu myndatökur og mælingar á svæðinu.“

Með uppfærðum upplýsingum er síðan hægt að velja bestu leiðina að gosinu, ef ein gönguleið fer undir hraun getur kortið vísað manni á aðra greiðari leið. Rafræna kortið tekur þó einnig mið af veðurspám og vindáttum og getur reiknað út hvar gasmengun muni liggja hverju sinni.

Allur ágóði óskiptur til björgunarsveita svæðisins

Kortin bjóða upp á fjölda mismunandi leiða upp að gosinu, bæði fyrir byrjendur og vana göngugarpa. Hvort sem fólk er að leita sér að heilli dagsferð eða vilji bara ganga stystu leið að gosinu. „Fólk hefur mikinn áhuga á því að komast í svona útiveru. Ég hef sjálfur lengi verið mikill áhugamaður um útivist á Reykjanesinu og tel fólk lengi hafa vanmetið þetta svæði. Sem dæmi eru þessi fjöll þarna í kringum Geldingadal algjörir konfektmolar,“ segir Tómas.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk kortið afhent fyrstur allra í gær en Tómas hefur gengið tvisvar með honum upp að eldstöðvunum. Þegar hann hefði heyrt af því að allar ágóði af sölu kortanna rynni beint til björgunarsveitanna á svæðinu hefði hann viljað festa kaup á því.

Kortið er fáanlegt fyrir þúsund krónur í öllum helstu útivistarvöruverslunum, 66, Fjallakofanum, Ellingsen og á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Rafræna útgáfan er einnig fáanleg ein sér á vef félagsins: fi.is.  

mbl.is