Skjálftahrina undir Mosfellsheiði

Stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð.
Stærsti skjálftinn mældist 2,5 að stærð. Kort/map.is

Skjálftahrina hófst undir Mosfellsheiði upp úr klukkan níu í morgun. Alls hafa mælst þar 38 skjálftar samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Allir hafa þeir orðið skammt frá kennileitinu Eiturhól, rétt norður af Nesjavallavegi og suðvestur af Þingvallavatni.

Stærstur skjálftanna mældist 2,5 að stærð og reið hann yfir rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Flestir hafa þeir annars verið á milli 1 og 2 að stærð.

Önnur hrina varð í apríl

Tæpir þrír mánuðir eru síðan vart varð við enn kröftugri skjálftahrinu á svæðinu og greindi mbl.is frá henni. Mældust þá yfir þrjú hundruð skjálftar á stuttu tímabili.

Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu fannst á höfuðborg­ar­svæðinu, vest­ur á Akra­nesi, í Hval­f­irði og einnig aust­ur á Laug­ar­vatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert