Tveir handteknir eftir slagsmál

Tveir menn voru skömmu fyrir klukkan 23 handteknir í miðbænum grunaðir um líkamsárás. Mennirnir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Rétt fyrir klukkan 17 óskuðu erlendir ferðamenn eftir aðstoð lögreglu, en þeir sögðust ekki finna bifreið sína þar sem þeir höfðu lagt henni. Lögregla aðstoðaði ferðamennina við leit í grennd við þann stað, en án árangurs. Talsvert af persónulegum munum ferðamannanna var í bifreiðinni. Klukkan 4:45 í morgun fannst bifreiðin, töluvert frá þeim stað sem þeir sögðust hafa lagt henni og virtist hún ekki hafa verið hreyfð. Var ferðamönnunum gert viðvart um fundinn. 

Um klukkan 18:30 var tilkynnt um þjófnað á rafmagnshlaupahjóli í miðbænum. Lögregla fór á vettvang, ræddi við eiganda hjólsins og er vitað hver þjófurinn er. Málið er í rannsókn samkvæmt lögreglu. 

Skömmu fyrir klukkan 19 var tilkynnt um líkamsárás og þjófnað við heimahús í miðbænum. Lögregla fór á vettvang, ræddi við brotaþola og er vitað hver gerandinn er. 

Nokkuð var um ölvaða einstaklinga sem voru til vandræða við veitingastaði í miðbænum. Í einu tilfelli fór lögregla á vettvang og gaf einstaklingnum skýr fyrirmæli um að láta af hegðun sinni og yfirgefa vettvang. Sá lét sér ekki segjast og var því handtekinn og vistaður í fangaklefa uns rennur af honum. 

Þá var um klukkan 1:40 í nótt tilkynnt um einstakling sem reyndi að fara inn í bifreið sem hann átti ekki. Lögregla fór á vettvang og handtók einstaklinginn sem reyndist vera eftirlýstur vegna annars máls. Var maðurinn vistaður í fangaklefa. 

Tilkynnt var um eitt rafskútuslys þar sem einstaklingur slasaðist. Fór lögregla á vettvang ásamt sjúkraliði. 

Þá var einn ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna sem og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. 

mbl.is