„Ekki það gagn sem við höfðum vænst“

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala. mbl.is/Ásdís

„Þetta er svo lúmskt,“ segir Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans, í samtali við mbl.is en tveir starfs­menn Land­spít­ala og einn inniliggj­andi sjúk­ling­ur greind­ust smitaðir af kór­ónu­veirunni í gær.

Már segir að ekki sé hægt að treysta á að sjúklingar séu bólusettir. „Nú á það eiginlega ekki við lengur hvort viðkomandi sé bólusettur eða ekki,“ segir Már en hann leggur áherslu á að það sé gagnsemi í bólusetningunni.

„Það er hins vegar ekki það gagn sem við höfðum vænst,“ segir hann og bætir við að þessi gríðarlega fjölgun smita komi honum á óvart. „Maður passaði kannski ekki alveg væntingastjórnunina.“

Óvíst hvaðan smitið kom

Már segir að ekki sé fullljóst hvernig starfsmennirnir smituðust. „Þetta er oftast tenging við einhverja útisamkomu eða tengsl út í daglegt líf. Sumir vita ekkert hvar þeir hafa smitast.“ Már segir því gríðarlega mikilvægt að starfsfólk spítalans hugi að einstaklingsbundnum sóttvörnum og fari í skimun ef það finnur fyrir einkennum. 

95 greind­ust smitaðir af kór­ónu­veirunni inn­an­lands í gær og segir Már að sá fjöldi bæti á álagið á Covid-göngu­deild­ spítalans sem sinnir eftirliti með smituðum. „Þetta er náttúrlega áskorun og við erum aðeins farin að kalla fólk úr sumarleyfum,“ segir Már og segir það vera óþægilega stöðu. 

Már segir að 85% af þeim sem séu greindir með smit séu með einkennasýni. „Þetta er fólk á öllum aldri,“ segir Már og nefnir að ekki sé búið að einkennaflokka smitaða eftir litakóða fyrir daginn í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert