Stefnir í metfjölda smita

„Bólusetningin er að skapa viðnámsþrótt í samfélaginu en eftir sem …
„Bólusetningin er að skapa viðnámsþrótt í samfélaginu en eftir sem áður eru margir bólusettir að smitast og jafnvel að dreifa veirunni áfram,“ segir Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirusmit, sem komu til landsins með fólki, mest Íslendingum, frá útlöndum og dreifðust mörg hver í skemmtanalífinu, eru farin að berast inn í fjölskyldur, vinahópa og á vinnustaði. Sóttvarnalæknir telur líklegt að metfjöldi smita greinist á næstunni en að útbreiðslan væri mun meiri ef bólusetningarhlutfallið væri lægra.

„Kúrfan er áfram á uppleið. Þetta er í þessum veldisvexti sem við höfum verið að tala um. Mér sýnist að þetta muni stefna hærra ef þetta heldur svona áfram. Ég minni á að í fyrstu og þriðju bylgju greindust mest rúmlega 100 smit á dag en ég held að við gætum alveg toppað það auðveldlega á næstunni. Þannig að við erum bara að sjá gríðarlega mikla og mjög hraða útbreiðslu á veirunni. 60-70% af þeim sem eru að greinast eru fullbólusett,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Útbreiðslan eykst við hvert stóra partíið

95 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þar af 75 utan sóttkvíar. Þórólfur segir að smitin tengist ekki lengur einungis skemmtanalífinu.

„Þetta er orðið miklu útbreiddara en svo. Þetta byrjar með útbreiðslu á stöðum þar sem útbreiðslan er mjög mikil. Það er til dæmis á skemmtistöðum og þar sem fólk er að hópast saman, er í mikilli nánd og passar sig ekki og er mismunandi vel áttað. Síðan breiðist þetta inn í fjölskyldur, vinahópa og fyrirtæki. Vissulega eykst útbreiðslan við hvert stóra partíið.“

Þrír af fjórum inniliggjandi fullbólusettir

Fjórir eru inniliggjandi á Landspítala, þó enginn á gjörgæslu, og nokkrir undir ströngu eftirliti Covid-göngudeildar. Mögulega þarf að leggja þá inn á sjúkrahús á næstu dögum. Þrír af þeim fjórum sem eru inniliggjandi eru bólusettir. Sá fjórði er óbólusettur.

Þórólfur bendir á að það skipti máli hverjir það eru sem smitast, þannig geti það verið mjög alvarlegt ef heilbrigðisstarfsmenn smitast því þá gætu þeir borið smit til viðkvæmra hópa.

Undanfarið hefur um 1% þeirra sem sýkst hafa af kórónuveirunni þurft á spítalainnlögn að halda en hlutfallið var um 5% áður. Þórólfur segir að mögulega megi þakka bólusetningunni fyrir að fleiri hafi ekki þurft að leggjast inn sem stendur.

Eru smitin farin að berast inn í viðkvæma hópa?

„Það er ekki alveg hægt að fullyrða um það. Það hafa einstaklingar smitast sem teljast til viðkvæmra hópa. Við erum ekki enn farin að greina þetta inni í hjúkrunarheimilum, ég veit að hjúkrunarheimilin eru búin að efla sínar varnir og auka við varúðarráðstafanir og annað.“

Hefði lagt til mun harðari aðgerðir ef bólusetning væri minna útbreidd

Smitrakningin hefur reynst mjög erfið.

„Fólk er úti um allt þannig að þetta er töluvert erfiðara en áður og smitrakningarteymið er töluvert á eftir svo þetta er orðið mjög snúið fyrir alla viðbragðsaðila.“

Spurður hvort veiran hefði breiðst meira út ef ekki væri fyrir hátt bólusetningarhlutfall segir Þórólfur:

„Það er ekki nokkur vafi á því að það væri miklu meiri útbreiðsla og ég hefði komið með miklu strangari tillögur en liggja fyrir núna.“  

Þar vísar Þórólfur til sóttvarnareglna sem taka gildi á miðnætti þar sem 200 mega mest koma saman, grímuskylda er tekin upp að nýju og eins metra nándarmörk.

„Eins og við höfum sagt þá er bólusetningin svona 90% virk í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi en 50-60% í að koma í veg fyrir smit. Það eru margir sem eru verndaðir. Það má ekki gleyma því í þessari umræðu. Bólusetningin skapar viðnámsþrótt í samfélaginu en eftir sem áður eru margir bólusettir að smitast og jafnvel dreifa veirunni áfram,“ segir Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina