97 prósent ennþá með væg eða engin einkenni

Landspítalinn.
Landspítalinn. Sigurður Bogi Sævarsson

Runólfur Pálsson, læknir og einn af yfirmönnum Covid-göngudeildar Landspítala, segir nú 15 af þeim 544 sem sæta einangrun vegna smits af Covid 19 gulmerkta og einn rauðmerktan. Þeir þrír sem liggja inni á spítala eru ekki inni í þessum tölum. Þannig eru 97% smitaðra enn með lítil eða engin einkenni.

Það þýðir að 528 eru með væg eða lítil einkenni en 15 með aukin og svæsnari. Þá er einn með mik­il ein­kenni.

Næstu tvær vikur þýðingarmiklar

Runólfur segir litakóðun sjúklinga breytast hratt og tölurnar hækki og lækki á hverjum degi: „Grænlitaðir geta breyst í gula ef hitinn hækkar verulega. Við fylgjumst meira með þeim. Þetta byggist allt á þeirri þekkingu sem þau hafa aflað fyrr í faraldrinum.“

Hann segir eðli veikinda bólusettra skýrast betur á næstu vikum: „Við erum með 40 til 50 einstaklinga í háum áhættuflokki í eftirliti. Fyrr í faraldrinum var það ekki fyrr en eftir fleiri daga sem þeir byrjuðu að finna fyrir einkennum. Næstu tvær vikur mun þetta skýrast betur varðandi fólk í áhættuhópum.“

mbl.is