Enn bætist í aflýsingar

Frá Kotmóti árið 2018.
Frá Kotmóti árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Vegna samkomutakmarkana sem tóku gildi í nótt hefur Kotmóti Hvítasunnukirkjunnar í Kirkjulækjarkoti verið aflýst. Hið sama má segja um Síldarævintýrið á Siglufirði. Báðar hátíðir áttu að fara fram um verslunarmannahelgina og bætast þær þannig í hóp þeirra mannmörgu viðburða sem blásnir hafa verið af vegna samkomutakmarkana. 

„Engu að síður er í undirbúningi dagskrá með gestapredikara mótsins, Jon Tyson, sú dagskrá verður send út frá Reykjavík um verslunarmannahelgina. Við gerum það besta úr aðstæðunum og er von á frábæru efni sem enginn vill missa af. Dagskráin verður nánar auglýst á næstu dögum,“ segir á vef Kotmótsins.

Frá Síldarævintýrinu árið 2017.
Frá Síldarævintýrinu árið 2017.

Einungis mega 200 koma saman

Á meðal þeirra viðburða sem aflýst hefur verið um verslunarmannahelgina eru Ein með öllu á Akureyri og Unglingalandsmót UMFÍ. Þá hefur verið ákveðið að bíða með Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum að sinni. 

Takmarkanirnar tóku gildi í nótt og kveða á um að 200 manns megi koma saman hið mesta.

Í ljósi nýjustu frétta af Covid-faraldrinum hefur verið tekin sú akvörðun að ekki verði haldið Síldarævintýri á Siglufirði um verslunarmannahelgina,“ segir í Facebook-færslu Síldarævintýrisins.

mbl.is