Fækkar um einn á sjúkrahúsi

Frá gjörgæsludeild Landspítala.
Frá gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítali

Nú eru þrír inniliggjandi á legudeildum Landspítala veikir af Covid-19. Þeir voru fjórir í gær. Níu starfsmenn spítalans eru í einangrun, 22 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 242 starfsmenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítala. 

Í tilkynningunni er tekið fram að sjúklingurinn sem greindist smitaður af kórónuveirunni á föstudag hafi ekki smitast á spítalanum heldur greinst við komu þangað.

„Enn fjölgar starfsmönnum sem rakningateymi almannavarna setur í sóttkví vegna útsetningar í samfélaginu. Þeir eru í sóttkví í 7 daga sem lýkur með neikvæðu sýni á 7. degi. Þetta getur orðið töluverð ógn við mönnun nú á hásumarleyfistíma. Þessir starfsmenn mega ekki koma inn í sóttkví C heldur verða yfirmenn að eiga samtal við farsóttanefnd um möguleikann á að beita sóttkví B í þessum tilvikum en það er aðeins gert ef öryggi er ógnað í þjónustu eða rekstri,“ segir í tilkynningunni. 

Þrjú PCR-próf fyrir starfsmenn spítalans við komuna til landsins

Þar kemur fram að þrátt fyrir hertar aðgerðir á landamærum sem taka gildi á miðnætti 27. júlí þurfi starfsfólk Landspítala að skila neikvæðu PCR-prófi sem tekið er strax eftir komuna til landsins, vera í vinnusóttkví C í 5 daga og skila svo öðru PCR-prófi. 

„Próf sem tekin eru fyrir brottför til Íslands eru viðbót við þetta ferli enda geta þau verið allt að 72 klst. gömul. Athygli er vakin á því að nú geta allir sem hafa íslenska kennitölu bókað sýnatöku á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins en það er gert í Heilsuveru,“ segir í tilkynningunni. 

Þar er tekið fram að strangar heimsóknarreglur séu í gildi á spítalanum og að ef grímuskylda sé ekki virt eigi gestir á hættu á að vera vísað frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert