Hefðum væntanlega misst tökin án bólusetninga

„Við þurfum að reyna að sjá fyrir okkur hvernig við …
„Við þurfum að reyna að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að vinna með þetta verkefni áfram. Það er alveg ljóst að þetta verður ekkert búið eftir þrjár vikur,“ segir Víðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að það séu vonbrigði að bólusetning gegn Covid-19 skuli ekki verja fólk betur fyrir kórónuveirusmiti en að án bólusetningar væru Íslendingar líklega búnir að missa tökin algjörlega á faraldrinum. Um 50% bólusettra virðast ná að verjast kórónuveirusmiti.

Aðspurður segir Víðir að það komi fyrir að bólusettir séu ósáttir við það þegar þeir þurfa að fara í sóttkví. 

„Það eru auðvitað alltaf einhverjir ósáttir, sérstaklega þeir sem héldu að þeir gætu treyst á bólusetningarnar. Þeim finnst ósanngjarnt að það sé verið að senda þá í sóttkví,“ segir Víðir.

Bólusetningarnar hjálpa mjög mikið

Undanfarið hafa margir bólusettir greinst smitaðir af Covid. Bólusetningin virðist þó vernda fólk vel fyrir alvarlegum veikindum.

Spurður hvort bólusetningin sé að bregðast hvað varðar vernd fyrir smitum segir Víðir:

„Já, ég held að þetta séu vonbrigði. Það reiknuðu allir með því að þetta myndi verja betur og við erum alltaf að sjá nýjar tölur, til dæmis frá Ísrael þar sem verndarhlutfallið þar kemur verr út með hverri rannsókninni sem þeir birta. Það er svolítið að endurspeglast hjá okkur. Þetta Delta-afbrigði [kórónuveirunnar] smitast mjög hratt og það er hár smitstuðull af því. Sem betur fer eru bólusetningarnar að virka vegna þess að annars værum við væntanlega með svo stóran faraldur að við værum búin að missa algjörlega tökin á þessu. Við hefðum viljað sjá betri árangur en bólusetningarnar eru klárlega að hjálpa mjög mikið.“

Verður ekki búið eftir þrjár vikur

Víðir segir um 50% fólks virðast ná að verjast smiti. „Það er jákvætt.“

Víða erlendis hefur bólusetning, eða neikvæð niðurstaða úr PCR-prófi, verið gerð að kröfu til þess að fólk komist inn á viðburði, veitingastaði og fleiri svæði þar sem fólk kemur saman. Spurður hvort slíkt sé á teikniborðinu hér á Íslandi segir Víðir:

„Við þurfum að reyna að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að vinna með þetta verkefni áfram. Það er alveg ljóst að þetta verður ekkert búið eftir þrjár vikur. Við verðum áfram með þessa veiru hangandi yfir okkur, þótt þessar aðgerðir séu til þriggja vikna þá þurfum við að finna leiðir sem virka til þess að hafa lífið sem eðlilegast. Það er ýmislegt sem þjóðir hafa verið að prófa sem er mjög áhugavert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina