Loks yljar sólin borgarbúum

Blíðskaparveður er í kortunum.
Blíðskaparveður er í kortunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrá höfuðborgarbúa eftir sólinni sem elskar allt verður líklega loks uppfyllt í vikunni þegar „nokkuð góðar líkur“ eru á blíðskaparveðri og hlýjum gulum geislum. Útlit er fyrir að á Norður- og Austurlandi fái gróður loks þá vökvun sem hann þarf á að halda.

Það stefnir í að meira og minna út vikuna verði bara býsna fínt veður hér á sunnanverðu landinu,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Vísir greindi fyrst frá.

Í sumar hefur sólin helst haldið sig á Norður- og Austurlandi. Óli segir aðspurður að staðan fari að breytast þar í vikunni

„Já, það er kominn tími á að fara að vökva hjá þeim líka, það er búið að vera þurrt lengi og gróðurinn þarf að fá eitthvað,“ segir Óli.

Ekki alveg sömu hitatölur og á Norður- og Austurlandi

„Eftir morgundaginn fer þetta að snúast. Við fáum ekki alveg sömu hitatölur hérna í borginni og voru á Norður- og Austurlandi en það mun hlýna og fyrst og fremst sjást til sólar. Það er náttúrulega vegna þess að loftið sem kemur sunnan úr höfum er alltaf mun hlýrra en það sem kemur norðan megin frá þannig að við fáum aldrei sömu hlýindin hérna sunnan til í sólskininu eins og þeir fyrir norðan.“

Allir dagarnir „býsna fínir“

Spurður um bestu dagana í vikunni á höfuðborgarsvæðinu, veðurfarslega séð, segir Óli vandasamt að segja til um það.

„En frá og með þriðjudegi er orðið býsna léttskýjað þannig að líklega verður vindur kannski helst til of norðanstæður á þriðjudag og miðvikudag til að ná í hlýjustu dagana en um næstu helgi er alla vega útlitið mjög gott. Svo er þetta spurning – ef vindur verður of hægur getur hafgolan komið inn og þá getur hún strítt okkur aðeins með hitastigið en það verða allir dagar býsna fínir.”

Óli segir að mögulega verði einhverjir síðdegisskúrir á sunnanverðu landinu um helgina en þeir séu ekkert til að hafa áhyggjur af.

mbl.is