Reglur taldar óskýrar og grímuskylda í Smáralind

Grímuskylda er nú í gildi í Smáralind.
Grímuskylda er nú í gildi í Smáralind. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Grímuskylda hefur verið tekin upp í Smáralind í kjölfar hertra sóttvarnaaðgerða, þar sem forsvarsmönnum verslunarmiðstöðvarinnar þóttu fyrirmæli stjórnvalda ekki nógu skýr. Þá þótti vissara að taka upp grímuskyldu frekar en ekki.

Ákvörðunin gæti komið til endurskoðunar, að því er Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar staðfestir í samtali við mbl.is.

„Í fyrstu þótti okkur þetta vera óskýrt sett fram. Það var ekki alveg samræmi á mili þeirra upplýsinga sem gefnar voru út í byrjun,“ segir Tinna. 

Nú þegar ljóst er að almennt sé ekki grímuskylda í verslunum, líkt og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, benti á í samtali við mbl.is í dag, komi ákvörðunin til endurskoðunar.

„Á meðan reglurnar voru ekki alveg skýrar þá töldum við að það væri réttast af okkur að taka þann pólinn sem er öruggastur fyrir viðskiptavini og starfsfólk,“ segir Tinna að lokum.

mbl.is