Úr fullum fangaklefum í eitt tilvik

Munurinn á dagbók lögreglu nú og um síðustu helgar er áberandi. Þá var þó nokkuð skráð um slagsmál og voru fangaklefar fullir á laugardagsnótt fyrir viku. Í nótt tóku reglur, sem takmarka afgreiðslutíma skemmtistaða verulega, gildi. Nú mega veitingastaðir, krár og skemmtistaðir hafa opið til klukkan 11 á kvöldin og þarf að koma öllum út af stöðunum fyrir miðnætti. 

Eins og fram hefur komið mun þetta hafa afar neikvæð áhrif á rekstur skemmtistaða og kráa, en rekstrargrundvöllur þeirra er almennt á klukkustundunum eftir miðnætti.

Langflestar tilkynninganna varða ölvunarakstur

Ein tilkynning barst lögreglu í gærkvöldi sem tengja má skemmtistöðum en sú tilkynning barst nokkuð snemma eða klukkan hálfellefu. Þá var aðstoðar óskað á skemmtistað í miðbænum vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni. Viðkomandi var ofurölvi og ósjálfbjarga og er nú vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum.

Nánast allar þær tilkynningar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá í dagbók sinni fyrir gærkvöld og nóttina varða akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Fimm sinnum vaknaði sá grunur hjá lögreglunni í miðbænum, þó einnig hvað varðaði ökumenn á ferðinni í Hlíðum og í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Þrisvar vaknaði sambærilegur grunur hjá lögreglustöð fjögur, í öll skiptin hvað varðaði ökumenn í Grafarvogi.

Tilkynnt var um eitt innbrot í miðbænum síðdegis í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert