„Ágætissumarveðurs“ að vænta á höfuðborgarsvæðinu

Veðurblíða á höfuðborgarsvæðinu.
Veðurblíða á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Búast má við ágætu veðri víða um land um verslunarmannahelgina. Veðurfræðingur segir útlit fyrir að hitabylgjunni sem farið hefur um Austur-, Norðaustur- og Suðausturland sé að ljúka. 

„Núna er veðrið að snúast svolítið við. Það verður dálítil úrkoma á Norður- og Austurlandi og kólnar þar, en hlýnar aftur á móti hér syðra. Það gerist strax á morgun en svo er býsna góð spáin um allt land um helgina; norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum og allt að 19 stiga hiti, hlýjast syðst,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

„Það gætu orðið einhverjar síðdegisskúrir en frá og með miðvikudeginum er spáin bara fín,“ segir Þorsteinn. Hlýjast verður á sunnanverðu landinu um helgina og heldur svalara fyrir norðan. 

Þorsteinn segir að á Suður- og Suðvesturlandi megi búast við allt að 20 stiga hita á næstu dögum. Þó er ekki viðbúið að íbúar höfuðborgarsvæðisins sjái álíka hitatölur og verið hefur á Austurlandi. 

„Strax um helgina verður kominn yfir 20 stiga hiti í uppsveitunum á Suðurlandi. Þetta er að snúast við, en það verða ekki alveg sömu hitatölur og við sáum. Þetta verður í kringum 20 stigin en ekkert upp fyrir það, en ágætissumarveður í vændum,“ segir Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert