„Ég kem áfram til með að tjá mig“

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vissi svo sem að það gæti brugðið til beggja vona í þessu en þetta er bara lýðræðisleg niðurstaða og menn hljóta að taka henni,“ segir Þorsteinn Sæmundsson inntur eftir viðbrögðum við niðurstöðum í ráðgefandi oddvitakosningu Miðflokksins í Reykavíkurkjördæmi suður.

Í kosningunni um oddvitasætið laut Þorsteinn Sæmundsson í lægra haldi fyrir Fjólu Hrund Björnsdóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Miðflokksins. Þau voru þau einu sem gáfu kost á sér í ráðgefandi kosningu um oddvitasæti og hafði Fjóla betur gegn Þorsteini með 58% atkvæða gegn 42%.

„Ég vissi svo sem ekkert alveg við hverju ég átti að búast en ég er aðallega þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Aðspurður telur Þorsteinn niðurstöðurnar segja lítið um störf hans í stjórnmálum. Þær séu aðeins svar við ákalli um fleiri konur. 

„Menn hafa bara verið að hugsa um ásýndarbreytingar, að það sé ákall eftir konum og að það sé ástæðan. Störf mín hafa ekki komið til umræðu neins staðar í þessu ferli, alla vega ekki svo ég muni eftir,“ segir hann.

Þá segist Þorsteinn vera sáttur við það sem hann hefur áorkað í starfi sínu fram að þessu þótt hann hefði viljað fá lengri tíma til að kára ákveðin mál.

„Ég er ágætlega sáttur við það sem ég er búinn að gera en hefði þurft meiri tíma og ég þarf meiri tíma til að klára mál sem ég er búinn að vera vinna að og enginn mun taka við. Þar á ég sérstaklega við um íbúðir sem Íbúðalánasjóður hirti af fólki. Það þarf einhvern veginn að leiða það mál til lykta og ég mun reyna að gera það þótt ég verði ekki lengur á þingi því það verður einhver að gera það.

Ég kem áfram til með að tjá mig um pólitísk mál og mun berjast áfram fyrir þeim málum sem ég hef haft á minni könnu sem enginn annar er líklegur til að taka að sér,“ segir hann að endingu.

mbl.is