Fá smit hjá íbúum heimila á vegum velferðarsviðs

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afar fá smit hafa komið upp hjá íbúum heimila sem rekin eru af velferðarsviði Reykjavíkurborgar og vel hefur gengið að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra.

Þetta kom fram á fundi neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar í morgun, að því er kemur fram á vefsíðu borgarinnar.

Á fundinum kom einnig fram að í flestum tilfellum þar sem smita hafi gætt hjá starfsfólki hafi verið um að ræða fólk í sumarleyfi.

Starfsfólki velferðarsviðs var gert að setja upp grímur í allri umönnun í síðustu viku og einnig voru settar reglur um skimun áður en snúið er aftur til starfa eftir utanlandsferðir eða þátttöku í stórmótum eða hátíðum.

Unnið er að gerð áætlana fyrir starfsemi skóla og leikskóla, íþróttastarf, þjónustu velferðarsviðs og aðra starfsemi borgarinnar sem taka gildi í næstu viku þegar starfsemi eykst á ný eftir sumarleyfi.

Starfsemi þeirra fjögurra leikskóla sem eru með fulla starfsemi núna hefur ekki skerst að neinu leyti og unnið er að skipulagi starfs hjá þeim leikskólum sem munu opna aftur eftir verslunarmannahelgina. Sama á við um annað skólastarf.

Vel hefur gengið að taka upp fjöldatakmarkanir á sundstöðum borgarinnar og unnið er að skipulagi á annarri starfsemi. 

Þá er verið að skoða hvort og þá með hvaða hætti muni verða hægt að halda upp á Menningarnótt í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert