Prófkjör nú meginregla innan Viðreisnar

Sátt virðist hafa myndast á milli Benedikts Jóhannessonar og Þorgerðar …
Sátt virðist hafa myndast á milli Benedikts Jóhannessonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Viðreisnar samþykkti á fimmtudag tillögur sem snúa að breytingum á reglum um innra starf flokksins. Meðal breytinga er að prófkjör verði nú meginregla innan flokksins. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Benedikts Jóhannessonar sem er orðinn formaður málfundafélagsins Endurreisn, sem er nú félag innan Viðreisnar. Benedikt er fyrrverandi formaður og einn af stofnendum Viðreisnar.

Óeining hefur ríkt innan Viðreisnar varðandi uppstillingarnefnd flokksins. Nefndin bauð Benedikt neðsta sæti á framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar, Benedikt hafði þá sóst eftir oddvitasæti og óskaði eftir afsökunarbeiðni frá uppstillingarnefnd. 

Nú er Benedikt hins vegar orðinn formaður Endurreisnar og segir að tillögur sem snúi að breytingum innan flokksins snúist um að bæta innra starf Viðreisnar enn frekar. Þær felast meðal annars í því að prófkjör verði meginregla um val á efstu sætum lista flokksins. „Tillaga um slíkt mun koma til umræðu á komandi landsþingi,“ segir í tilkynningunni. 

Ánægð með áframhaldandi störf Benedikts

Í tilkynningunni kveðst Benedikt ánægður með niðurstöðuna. „Nú skiptir máli að snúa bökum saman og berjast saman fyrir nauðsynlegum grundvallarbreytingum á íslensku samfélagi en áherslumál Viðreisnar hafa aldrei verið eins mikilvæg fyrir þjóðina og einmitt núna,“ segir Benedikt og segist halda áfram að starfa af fullum heilindum að markmiðum sínum innan Viðreisnar.

Formaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segist í tilkynningunni ánægð með að jafn öflugur liðsmaður og Benedikt muni áfram starfa með flokknum. „Við höfum sameiginlega sýn á það hvernig gera má íslenskt samfélag betra og ég hef fulla trú á því að saman eigum við eftir að gera flokkinn sterkari,“ sagði Þorgerður Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert