Skálar heppilega byggðir fyrir sóttvarnahólf

Skáli ferðafélagsins í Emstrum, en þar eru þrír skálar sem …
Skáli ferðafélagsins í Emstrum, en þar eru þrír skálar sem hýsa alls 60 manns. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er víða sem aðstæður vinna með okkur. Við náum að aðgreina hópa mjög vel og halda jafnvel hópum sem eru að ferðast saman,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, en skálum þeirra hefur nú verið skipt upp í sóttvarnahólf að nýju.

„Við höfum skipt öllum svæðum niður í hólf, ýmist tvö, þrjú eða fjögur, eftir stærð svæða og umfangi umferðar. Síðan eru salerni skipulögð út frá hólfaskiptingu,“ segir hann en skálarnir eru sem betur fer flestir þannig byggðir að auðvelt er að hólfaskipta þeim.

Í þeim flestum eru álmur og í sumum skálasvæðanna, til að mynda á Álftavatni og í Emstrum, er hægt að skipta hólfum upp eftir heilum skálum. „Við náum að halda fólki ýmist í sérskálum eða í hólfum í skálunum,“ segir Páll.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

Persónubundnar sóttvarnir skipti mestu

Ferðafélag Íslands og deildir þess reka 40 skála víða á hálendi Íslands og eru stærstu skálasvæðin beggja vegna við Laugaveginn, hina vinsælu gönguleið; í Landmannalaugum og Þórsmörk.

Þá er reynt í ferðum félagsins að tryggja ávallt eins metra fjarlægð milli manna, ella þurfi að nota grímu. Þá eru þátttakendur hvattir til að huga vel að persónubundnum sóttvörnum.

„Þannig er mikilvægt að spritta og gæta vel að fjarlægðarmörkum,“ segir Páll. Þegar öllu er á botninn hvolft skipti persónubundnar sóttvarnir mestu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert