Veruleg röð í sýnatöku í allan dag

Veruleg röð hefur verið í sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag. …
Veruleg röð hefur verið í sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag. Röðin náði upp að starfsstöðvum Símans í Ármúla í dag. mbl.is/Þorsteinn

Veruleg röð hefur verið í sýnatöku á Suðurlandsbraut í allan dag. Röðin hefur að jafnaði náð hringinn í kringum húsið og teygt sig langt inn í Ármúla, jafnvel allt að höfuðstöðvum Símans.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóri sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir gífurlegan fjölda vera að mæta í sýnatöku í dag og álagið sé mikið á starfsfólki sökum þess.

„Það er bara gríðarlega mikið að gera. Almenna stutta svarið í dag er að röðin nær allan hringinn og við erum bara að reyna að vinna úr þessu,“ segir Ingibjörg.

Eins og að borða fíl

Þrátt fyrir að sýnatökuferlið sé vel smurt getur fólk þó lent í því að þurfa að bíða í röð vegna fjöldans. Ingibjörg segir ekkert við því að gera. „Fólk verður bara að hinkra og við tökum þetta bara svolítið eins og að borða fíl; einn bita í einu.“

Ingibjörg segist ekki vita til þess hvort til standi að opna aðra sýnatökumiðstöð vegna álags. Hún segir þó vel geta verið að einhverjir taki upp á því að bjóða upp á hraðprófssýnatöku, en það sé ekkert sem hún viti þó af.

Spurð út í þá smithættu sem getur myndast í röðinni að sýnatökunni og hvernig best sé að fyrirbyggja smit þar segir Ingibjörg: „Fólk þarf bara að halda tveggja metra fjarlægð, eða þá allavega eins metra og mæta með grímu.“

mbl.is