„Við erum að læra á Delta-afbrigðið“

„Við viljum frekar fara varlega núna og geta svo aflétt …
„Við viljum frekar fara varlega núna og geta svo aflétt þegar við lærum meira um þessa veiru, heldur en að gera ekkert og þurfa að taka mjög alvarlegum afleiðingum áður en við lærum lexíuna,“ segir Kamilla. mbl.is/Árni Sæberg

Smitin sem hafa verið að greinast utan sóttkvíar undanfarið hafa mörg hver greinst í kringum fólk sem var í sóttkví. Af þessum sökum er til skoðunar að hverfa aftur til sóttkvíarskilgreininga sem voru í notkun áður en tillit var  tekið til bólusetninga.

Tengingar við smitaða sem metnar hafa verið sem minniháttar hafa reynst nægilega sterkar til þess að fólk hafi smitast.

Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis, í samtali við mbl.is.

71 kórónuveirusmit greindist innanlands í gær, þar af var tæplega helmingur smitaðra utan sóttkvíar við greiningu.

„Þetta er í kringum þekkt smit þannig að við erum aðeins að skoða að fara aftur til fyrri sóttkvíarskilgreininga sem við vorum með í notkun áður en við tókum tillit til bólusetninga,“ segir Kamilla.

Þegar skilgreiningunni var breytt var rakningarteymi gefin heimild til þess að taka tillit til bólusetningarstöðu þess sem hafði mögulega verið útsettur fyrir smiti. Eins og reglurnar eru núna getur rakningarteymið ákveðið að senda ekki í sóttkví bólusetta einstaklinga sem hafa átt í mjög takmörkuðum samskiptum við smitaðan einstakling.

„En það getur verið að við þurfum aðeins að bakka með það með tilliti til þess að útbreiðslan er mjög mikil hérna. Við erum að sjá smit aðeins í kringum sóttkvína sem hafa tengingu sem var metin sem minniháttar en hefur sýnt sig að sé næg til þess að smitast. Við erum að læra á Delta-afbrigðið,“ segir Kamilla.

Mikið um smit á meðal óbólusettra erlendis

Hún jánkar því að það hegði sér greinilega öðru vísi en fyrri afbrigði kórónuveirunnar. Eins og fram hefur komið er afbrigðið bráðsmitandi. Þau smit kórónuveirunnar sem hafa greinst innanlands undanfarið eru langflest af Delta-afbrigðinu.

Kamilla segir að sem stendur sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að eitthvert ákveðið hlutfall bólusettra sem smitast verði alvarlega veikir. Bólusetning virðist vernda fólk nokkuð vel fyrir alvarlegum veikindum.

„Við erum að reyna að fá nánari upplýsingar þar sem Delta er búið að vera í gangi lengur og þar sem þeir hafa góðan samanburð á óbólusettum hópum og bólusettum. Það eru bara svo fáir komnir langt með bólusetningarnar að þessar háu smittölur sem við erum að sjá í löndunum í kringum okkur eru oft smit á meðal bólusettra. Þannig að hópur bólusettra í löndunum sem eru farin að geta metið einhverja tölfræði er mun minni en hér.“

Hafa ekki fordæmi til þess að styðja það að grípa ekki til aðgerða

Er hægt að horfa til þess að við séum að fá aukið hjarðónæmi með fleiri smitum?

„Ég held að það sé ekki hægt að sjá þetta í jákvæðu ljósi. Því fleiri sem smitast, því meiri hætta er á því að þeir fari illa út úr þessu, hvort sem þeir eru með einhverja undirliggjandi sjúkdóma sem auka þeirra hættu á því eða ekki. Það er náttúrlega alveg til að hraust fólk fái alvarlega Covid-sýkingu. Við vonum að lærdómurinn af þessari bylgju verði sá að bólusetningarnar dugi vel til þess að hindra alvarleg veikindi, gjörgæsluinnlagnir og dauðsföll en við erum ekki komin með nægilega haldbærar upplýsingar um það enn þá.“

Kamilla segir að það, að ekki sé vitað hvernig staðan muni þróast, sé ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að grípa til sóttvarnaaðgerða að nýju um sl. helgi.

„Við höfum ekki fordæmi erlendis frá um útbreidd smit meðal bólusettra til þess að styðja það að gera ekki neitt. Það eru engir aðrir sem höfðu náð jafn miklum árangri og við í bólusetningunum og þar með engir aðrir sem höfðu dregið jafn mikið úr samfélagsaðgerðum eins og við höfðum gert. Við viljum frekar fara varlega núna og geta svo aflétt þegar við lærum meira um þessa veiru, heldur en að gera ekkert og þurfa að taka mjög alvarlegum afleiðingum áður en við lærum lexíuna.“

mbl.is